Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 1393/1979
Gjaldár 1972-1976
Lög nr. 68/1971, 42. gr. 4. mgr. Lög nr. 10/1960, 27. gr. 1. mgr.
Söluskattur - Endurupptaka
Málavextir voru þeir, að með bréfi, dags. 12. maí 1977, óskaði rannsóknardeild ríkisskattstjóra eftir því, að bókhald kæranda fyrir árin 1972, 1973, 1974, 1975 og 1976 yrði lagt fram. Þessu bréfi var ekki svarað. Með bréfi, dags. 26. október 1977, var þessi ósk ítrekuð og jafnframt tilkynnt, að ef svar bærist ekki myndi söluskattsskyld velta verða áætluð fyrir umrædd tímabil og söluskattur hækkaður.
Með úrskurði, dags. 8. ágúst 1978, var lagður á kæranda viðbótarsöluskattur fyrir umrædd ár, en kærandi hafði ekki svarað bréfum deildarinnar.
Ríkisskattstjóri krafðist staðfestingar á úrskurðinum.
Í úrskurði ríkisskattanefndar segir svo:
„Öll þau ár, sem hér um ræðir, hafði sölugjald gjaldandans verið ákveðið annað hvort með áætlun og/eða skv. innsendum skýrslum. Þykir álagning ríkisskattstjóra ekki hvíla á neinum nýjum upplýsingum eða gögnum, sem leiða eigi til hækkunar sölugjalds hjá gjaldandanum, enda ekkert það í ljós leitt, sem bendir til of lágrar álagningar á sölugjaldi.“
Samkvæmt þessu var viðbótarálagning ríkisskattstjóra fyrir árin 1972 - 1976 alls kr. 794.861 felld niður.