Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 321/1979
Söluskattur 1978
Lög nr. 10/1960, 21. gr.
Söluskattur
Málavextir voru þeir, að rannsóknardeild ríkisskattstjóra gerði athugun á bókhaldi og söluskattsskilum kæranda fyrir janúar, febrúar og mars 1978. Í framhaldi af þessari athugun áætlaði ríkisskattstjóri kæranda söluskattsskylda veltu fyrir nefnd tímabil og reiknaði sölugjald í samræmi við þá áætlun. Þá voru reiknuð viðurlög á þannig ætlað vangreitt sölugjald. Nam hækkun sölugjalds kr. 439.191 og viðurlög kr. 127.982.
Ákvörðun sína reisti ríkisskattstjóri á því, að fram hefði komið við athugun rannsóknardeildarinnar, að söluskráningu og gagnavörslu hefði ekki verið hagað í samræmi við ákvæði laga nr. 51/1968, um bókhald, sbr. 11. gr. reglugerðar nr. 354/1972, um bókhald og 15. og 22. gr. reglugerðar nr. 169/1970, um söluskatt, þrátt fyrir gefin fyrirmæli rannsóknardeildarinnar.
Hefði verið um verulega annmarka að ræða á skráningu á staðgreiðslusölu kæranda og hefði frumskráningargögnum verið hent og því eigi unnt að fá upplýsingar um raunverulega sölu til sannprófunar á skráðri sölu. Væri því ekki um að ræða nægilega traustan grundvöll til að byggja á söluskattsskil og yrði því skv. 7. mgr. 21. gr. laga nr. 10/1970, um söluskatt, að áætla kæranda söluskattsskylda veltu.
Kærandi bar fyrir sig, að réttmæti sölunnar væri ekki dregið í efa. Vankantar þeir, sem fram hefðu komið, hefðu stafað annars vegar af óviðráðanlegum atvikum, þ.e. bókhaldsvél hefði bilað og færsla bókhalds dregist um tíma af þeim sökum, og hins vegar hefði verið um að ræða formsatriði eitt að því er snerti kassastrimla og uppgjörsform. Gerði kærandi nánari grein fyrir þessum atriðum svo og söluskráningu sinni. Sala hvers dags hefði að kvöldi verið færð í kassabók og væri hún sú heimild, er söluskattsskil hvíldu á, enda ekki um nein lánsviðskipti að ræða.
Í niðurstöðu ríkisskattanefndar segir svo:
„Í máli þessu er því eigi haldið fram, að kærandi hafi dregið viðskipti undan söluskatti og gefa gögn málsins eigi tilefni til að ætla að um slíkt hafi verið að ræða. Af þessum sökum og með hliðsjón af skýringum og upplýsingum kæranda þykja ekki efni til að áætla kæranda viðbótarsöluskattsskylda sölu. Þykir því mega fallast á kröfu kæranda um niðurfellingu viðbótarsölugjalds og viðurlaga.“