Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 993/1979

Söluskattur 1977

Lög nr. 10/1960  

Söluskattur - Kæruheimild - Kröfugerð ríkisskattstjóra

Málavextir voru þeir, að á árinu 1978 hafði ríkisskattanefnd vísað kæru frá með úrskurði sökum þess að boðaður rökstuðningur hefði ekki borist. Á árinu 1979 sendi umboðsmaður kæranda skattframtal hans árið 1977 og óskaði eftir því að málið yrði endurupptekið og álagningu hagað í samræmi við innsent skattframtal.

Af hálfu ríkisskattstjóra var á það fallist að fram komið skattframtal, söluskattsskýrsla og launamiðafylgiskjal yrði lagt til grundvallar við ákvörðun opinberra gjalda og sölugjalds. Viðurlaga var krafist á gjaldstofna samkvæmt skattframtalinu og að lögboðnum viðurlögum og dráttarvöxtum yrði bætt við sölugjald og að 25% álag yrði sett á launaskatt.

Ríkisskattanefnd féllst að að endurupptaka fyrri frávísunarúrskurð og leggja innsent skattframtal kæranda árið 1977 til grundvallar álagningu í stað áætlunar skattstjóra að viðbættum 25% viðurlögum svo og 25% álagi á launaskatt.

Að því er snertir sölugjald, sbr. kröfugerð ríkisskattstjóra, segir svo í úrskurði ríkisskattanefndar:

„Frumálagning söluskatts eftir viðbótarsöluskattsskýrslu dags. 20/2 1979 hefur ekki verið framkvæmd af skattstjóra og liggur því ekki fyrir kæranlegur úrskurður til ríkisskattanefndar varðandi álagningu söluskatts á kæranda. Kröfu ríkisskattstjóra um, að lögboðnum viðurlögum og dráttarvöxtum verði bætt við sölugjald er því vísað frá.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja