Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 475/1992

Gjaldár 1990

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. og B-liður — 30. gr. 1. mgr. A-liður 1. tl. — 31. gr. 1. tl. — 32. gr. — 91. gr. 1. mgr. — 116. gr.  

Skattskyldar tekjur — Ökutækjastyrkur — Ökutækjakostnaður — Ökutækjaskýrsla — Rekstraryfirlit fólksbifreiðar — Rekstrarkostnaður — Bifreiðakostnaður — Atvinnurekstur — Sjálfstæð starfsemi — Atvinnurekstrartekjur — Fylgigögn skattframtals — Matsreglur ríkisskattstjóra — Skattmat ríkisskattstjóra — Kennslubifreið — Ökukennari — Einkanot — Einkanot bifreiðar — Fyrning — Fyrnanleg eign — Lausafé — Ófyrnanlegt lausafé — Almenn fyrning — Fyrning, almenn — Afskrift, föst — Föst afskrift — Framtalsháttur — Frádráttarheimild — Ófrádráttarbær kostnaður

I.

Málavextir eru þeir, að kærandi hafði ökukennslu að aukastarfi og fylgdi ársreikningur vegna þeirrar starfsemi skattframtali hans árið 1990. Eignfærð var kennslubifreiðin A og gjaldfærð almenn fyrning bifreiðar þessarar 128.902 kr. Var bifreið þessi eina bifreiðin í eigu kæranda. Auk gjaldfærslu nefndrar fyrningar gjaldfærði kærandi á rekstrarreikningi vegna ökukennslu 139.802 kr. sem bifreiðakostnað vegna nefndrar bifreiðar. Kom fram í rekstrarreikningnum að bifreiðakostnaður hefði alls numið 201.163 kr. en 31% kostnaðarins eða 61.361 kr. væru dregnar frá vegna eigin nota. Þá færði kærandi kostnað vegna nefndrar bifreiðar á móti ökutækjastyrk 81.816 kr. frá vinnuveitanda sínum, X, og eiginkona kæranda á móti ökutækjastyrk 4.463 kr. frá Y hf. Námu frádráttarfjárhæðir sömu fjárhæðum og tekjufærðir ökutækjastyrkir. Skattframtalinu fylgdi greinargerð um ökutækjastyrki og ökutækjarekstur (RSK 3.04). Nam þar tilgreindur heildarakstur bifreiðarinnar 14.500 km og þar af taldi kærandi akstur í þágu vinnuveitanda hafa verið 4.500 km, akstur til og frá vinnu 2.300 km og annar akstur í eigin þágu 7.700 km. Heildarbifreiðakostnaður var tilgreindur sá sami og í rekstrarreikningi eða 201.163 kr. að viðbættri árlegri fastri afskrift 84.632 kr. eða alls 285.795 kr. Af þessum kostnaði taldi kærandi 88.695 kr. vera vegna aksturs í þágu vinnuveitanda.

II.

Með bréfi, dags. 27. júlí 1990, tilkynnti skattstjóri kæranda, að gjaldfærð almenn fyrning bifreiðarinnar á rekstrarreikningi 128.902 kr. hefði verið felld niður með því að fólksbifreið væri ekki fyrnanleg eign í skilningi 32. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þar sem um væri að ræða aukastarf við ökukennslu. Hækkaði skattstjóri hreinar tekjur kæranda af ökukennslu um þessa fjárhæð. Af hálfu kæranda var þessari breytingu skattstjóra mótmælt í kæru, dags. 26. ágúst 1990. Taldi hann, að jafnræðis væri ekki gætt með þeim, er ökukennslu stunduðu, væri fyrning felld niður og skipti ekki máli, þótt aðalstarf kæranda væri hjá X. Hluti af teknaöflun hans væri af ökukennslu.

Skattstjóri tók kæruna til úrlausnar með kæruúrskurði, dags. 22. október 1990, og synjaði kröfu kæranda. Í úrskurðinum segir svo:

„Í eigu kæranda var ein bifreið á árinu 1989. Bifreiðin var nýtt til aksturs vegna vinnuveitanda kæranda og maka hans, við ökukennslu og til eigin nota.

Samkvæmt fylgiskjali með framtali kæranda „endurgreiddur bifreiðakostnaður“ var heildarkostnaður bifreiðarinnar kr. 285.795 að meðtalinni fastri árlegri afskrift kr. 84.632.

Heildarakstur bifreiðarinnar er talinn vera 14.500 km.

Bifreið kæranda er ekki fyrnanleg eign í skilningi 32. gr. laga nr. 75/1981. Um er að ræða fólksbifreið sem notuð er bæði til einkaafnota og við eigin atvinnurekstur, en skv. fyrirmælum ríkisskattstjóra skal gerð grein fyrir heildarakstri og kostnaði slíkrar bifreiðar á fylgiskjali með framtali „rekstraryfirlit fólksbifreiðar“ RSK 4.03. Nefnt fylgiskjal hefur ekki verið lagt fram.

Af fyrirliggjandi upplýsingum þykir ljóst að mati skattstjóra að frádráttur kæranda frá tekjum vegna notkunar bifreiðar sé ekki vanmetinn. Má í því sambandi nefna að annar akstur í eigin þágu er einungis 3.200 km sem fær ekki staðist.“

III.

Af hálfu kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 20. nóvember 1990, og ítrekar hann þá kröfu sína, að gjaldfærð almenn fyrning bifreiðar hans verði látin óhögguð standa á rekstrarreikningi vegna ökukennslu.

IV.

Með bréfi, dags. 25. mars 1991, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“

V.

Svo sem fram hefur komið notaði kærandi umrædda bifreið jöfnum höndum við ökukennslu, til aksturs í þágu vinnuveitanda og til einkanota. Kærandi gjaldfærði almenna fyrningu bifreiðarinnar 128.902 kr. á rekstrarreikningi vegna ökukennslu. Jafnframt færði hann fasta árlega afskrift vegna bifreiðar þessarar 84.632 kr. með bifreiðakostnaði í greinargerð um ökutækjastyrk og ökutækjarekstur (RSK 3.04) og reiknaði fjárhæð til frádráttar í reit 32 á móti ökutækjastyrk á þeim grundvelli. Á sama hátt reiknaði eiginkona kæranda hluta af bifreiðakostnaðinum til frádráttar á móti ökutækjastyrk sínum. Þessar færslur almennrar fyrningar og fastrar afskriftar fá ekki samþýðst. Að öðru leyti þykja framtalshættir kæranda varðandi frádrátt kostnaðar af bifreið hans ekki fá staðist. Meðal annars er til þess að líta, að heildarkostnaður vegna bifreiðarinnar án fyrningar og fastrar afskriftar nemur 201.163 kr. Þar af gjaldfærði kærandi á rekstrarreikningi vegna ökukennslu 139.802 kr. eða 69,5% og hefur skattstjóri látið þá fjárhæð óhaggaða standa. Þá færði kærandi og eiginkona hans alls 86.279 kr. til frádráttar í reiti 32 sem bifreiðakostnað á móti ökutækjastyrkjum. Lét skattstjóri þessa frádráttarliði óhaggaða standa. Samkvæmt þessu nemur fjárhæð frádráttar kostnaðar vegna bifreiðar þessarar á móti tekjum alls 226.081 kr. Er þá eftir að líta til þess kostnaðar, sem af einkanotkun bifreiðarinnar leiddi, en ekki var önnur bifreið í eigu kæranda og eiginkonu hans. Með vísan til þess, sem að framan er rakið, þykir bera að virða mál þetta svo, að kostnaður vegna umræddrar bifreiðar til frádráttar tekjum sé í heild sinni síst vanmetinn og þykja engin efni til hækkunar hans. Af þessum sökum er kröfu kæranda synjað.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja