Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 197/1976

Gjaldár 1974

Lög nr. 68/1971, 5. gr., 9. gr.  

Skattskylda félaga

Hlutafélagið A var stofnað í árslok 1973 og er stofnsamningur þess og samþykktir dags. 22. des. það ár. 1 9. gr. stofnsamnings segir m.a.:

„Félagið tekur við nafni, eignum, réttindum og rekstri B s.f. frá og með 1. janúar 1973 og tekur að sér að greiða skuldbindingar þess. Lofa undirritaðir eigendur B s.f. að láta A h.f. í té sérstök eignarafsöl fyrir eignum B s.f. eftir því, sem þörf verður talin.“

Skattárið 1973 var talið fram af hálfu A h.f. fyrir allt árið, en ekkert framtal sent fyrir B s.f. Skattstjóri taldi þennan framtalshátt óheimilan og taldi að skattárið 1973 hvíldi skattskyldan að öllu leyti á B s.f. Segir svo um það í bréfi til kæranda, B s.f.

„Telja verður að félagið hafi hætt störfum og verið slitið og eignum þess ráðstafað 22. des. 1973 og ber því að greiða alla skatta og önnur opinber gjöld af rekstri þess til þess tíma. Vegna félagsslita og ráðstöfunar á varasjóði félagsins ber að skattleggja hann með 20% álagi.“

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir:

„Þótt það kunni að hafa verið heimilt að semja svo um í stofnsamningi A h.f. frá 22. des. 1973, að það félag tæki við eign­um og rekstri B s.f. frá 1. janúar það ár, þá breytir það samningsákvæði engu að því er varðar skattaðild félaganna. Leggja verður til grundvallar, að rekstur á árinu 1973 hafi farið fram á vegum og á ábyrgð B s.f. Með stofnun hlutafélagsins A varð til ný lögpersóna og nýr skattþegn. Flutningur hins skattfrjálsa varasjóðs milli félaganna var skattskyldur, sbr. upphafsákvæði 9. gr. laga nr. 68/1971 um tekjuskatt og eignarskatt.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja