Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 478/1992

Gjaldár 1989

Lög nr. 75/1981 — 53. gr. 4. mgr. — 73. gr. — 95. gr. 2. mgr. — 99. gr. 1. mgr. 1. ml. — 106. gr. 1. mgr.  

Síðbúin framtalsskil — Áætlun — Áætlun skattstofna — Skattframtal í stað áætlunar — Álag — Álag vegna síðbúinna framtalsskila — Vítaleysisástæður — Eignfærsla — Skattskyld eign — Eign, skattskyld — Vantalin eign — Eign, vantalin — Verðbreytingarfærsla — Stofn til verðbreytingarfærslu — Verðbreytingarfærslustofn — Eignir við útreikning verðbreytingarfærslu — Skuldir við útreikning verðbreytingarfærslu — Skuldir hluthafa við hlutafélag — Inneignir hluthafa hjá hlutafélagi — Hluthafi — Hlutafélag — Hluthafalán — Verðbreytingarfærsla, vaxtareikningur skulda og inneigna stjórnarmanna, hluthafa o.fl.

Kærandi taldi ekki fram innan tilskilins framtalsfrests árið 1989. Við frumálagningu opinberra gjalda það ár sætti kærandi því áætlun skattstjóra á skattstofnum. Við hina áætluðu skattstofna bætti skattstjóri 25% álagi samkvæmt heimildarákvæðum 1. mgr. 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Skattframtal kæranda sem er ódagsett barst skattstjóra hinn 29. ágúst 1989 samkvæmt áritun hans á skattframtalið um móttöku þess. Af hálfu umboðsmanns kæranda var álagning opinberra gjalda ársins 1989 kærð með bréfi, dags. 24. ágúst 1989, og þess óskað að hið innsenda skattframtal yrði lagt til grundvallar álagningu opinberra gjalda í stað áætlunar.

Með kæruúrskurði, dags. 28. maí 1990, féllst skattstjóri á að leggja hið innsenda skattframtal til grundvallar álagningu opinberra gjalda ársins 1989 að gerðum nokkrum breytingum. Hinar kærðu breytingar skattstjóra til ríkisskattanefndar eru eftirfarandi:

1. Skattstjóri hækkaði bókfært verð eigna á fyrningarskýrslu um 96.752 kr. Segir í kæruúrskurðinum að hækkunin sé í samræmi við breytingar skattstjóra á skattframtali kæranda árið 1988 skv. bréfi hans, dags. 30. október 1989.

2. Skattstjóri leiðrétti verðbreytingarskýrslu að því leyti að hann felldi niður inneignir og skuldir hluthafa sem færðar voru í B-lið skýrslunnar til frádráttar stofnum til útreiknings verðbreytingarfærslu á þeim forsendum að þær fjárhæðir teldust ekki til eigna og skulda sem um ræði í 3. mgr. 53. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

3. Skattstjóri beitti 25% álagi á skattstofna skv. 1. mgr. 106. gr. nefndra laga vegna síðbúinna skila kæranda á skattframtali, þar sem ekki hafi verið sýnt fram á að þær ástæður hafi legið fyrir er leiddu til þess að fella bæri álagið niður samkvæmt ákvæðum 3. mgr. sömu greinar sömu laga.

Af hálfu umboðsmanns kæranda hefur kæruúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 6. júní 1990. Er kröfugerð kæranda varðandi kæruefnin svohljóðandi í kærubréfinu:

„Í úrskurði skattstjóra er bókfært verð fastafjármuna hækkað um kr. 96.752. Í úrskurði skattstjóra frá 30. október 1989, vegna skattframtals 1988, gerði hann leiðréttingar á skattframtali sem þáverandi umboðsmaður umbjóðanda okkar gerði. Ekki var tekið tillit til þessara breytinga við gerð skattframtals 1989. Meðfylgjandi er fyrningarskýrsla og samkvæmt henni voru fastafjármunir vanframtaldir um kr. 39.507 en ekki kr. 96.752, eins og segir í úrskurðinum.

Skattstjóri felldi niður frádráttarliði í B-lið á verðbreytingarskýrslu. Annars vegar er um að ræða skuldir við hluthafa kr. 395.546 og hins vegar inneign hjá hluthafa kr. 43.277. Samkvæmt 4. mgr. 53. gr. laga nr. 75/1981, um tekju- og eignarskatt, teljast skuldir og inneignir hluthafa í hlutafélögum ekki til eigna eða skulda við útreikning á verðbreytingarfærslu nema því aðeins að skuldir þessar og inneignir séu vaxtareiknaðar með sambærilegum kjörum og gilda í innlánsstofnunum á hverjum tíma. Fyrrgreindar skuldir og inneignir voru ekki vaxtareiknaðar og koma því ekki inn í verðbreytingarfærslu. Förum við því fram á að þessi breyting skattstjóra verði felld niður.“

Þá fer kærandi ennfremur fram á að álag á skattstofna vegna síðbúinna skila verði fellt niður, en deilur milli núverandi og fyrrverandi eigenda kæranda hafi leitt til þess að langan tíma hafi tekið að afla ýmissa upplýsinga svo unnt væri að ljúka skattframtalsgerð fyrir kæranda árið 1989.

Með bréfi, dags. 22. janúar 1991, hefur ríkisskattstjóri gert þá kröfu í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Að virtum öllum málavöxtum og gögnum málsins er fallist á kröfur kæranda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja