Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 1152/1978
Gjaldár 1977
Lög nr. 68/1971, 7. gr. E-liður
Söluhagnaður af bifreið
Skattstjóri færði kæranda til tekna ætlaðan skattskyldan hluta ágóða af sölu bifreiðar kr. 520.740,- og skattskyldan hluta fyrninga bifreiðarinnar kr. 74.480,- á þeim grundvelli að um væri að ræða fyrnanlegt lausafé.
Kærandi, er var starfandi héraðsdýralæknir, mótmælti skattlagningunni. Greindi kærandi svo frá, að hann hefði í desember árið 1972 fest kaup á Range Rover bifreið og þá greitt kr. 450.000,- upp í kostnaðarverð, sem hafi orðið kr. 776,000,- en afhending bifreiðarinnar hafi farið fram eftir áramót 1972/1973. Kvaðst kærandi hafa notað bifreiðina við störf sín sem héraðsdýralæknir, þar til í desembermánuði árið 1976, en þá hafi bifreiðin verið seld á kr. 2.000.000,-.
Af hálfu ríkisskattstjóra var þess krafist, að úrskurður skattstjóra yrði staðfestur, enda hefði hin selda bifreið samkvæmt gögnum málsins verið að langmestu leyti notuð í þágu atvinnurekstrar kæranda og afskriftarheimildir nýttar að fullu og ekki hefði verið fram á það sýnt, að eignarhaldstími hefði náð 4 árum.
Í úrskurði ríkisskattanefndar segir:
„Svo sem atvikum máls þessa er háttað þykir bera að fara með hagnað af sölu þeirrar bifreiðar, er hér um ræðir, eftir ákvæðum 1. og 5. mgr. E-liðs 7. gr. laga nr. 58/1971, um tekjuskatt og eignarskatt.
Er úrskurður skattstjóra því staðfestur.“