Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 777/1977

Gjaldár 1976

Lög nr. 68/1971, 7. gr. 5. mgr. E-liður  

Söluágóði fyrnanlegs lausafjár

Skattstjóri hækkaði teknahlið á framtali kæranda gjaldárið 1976 um kr. 323.367,- vegna meints söluhagnaðar af bifreið. Við kæru lækkaði skattstjóri söluhagnað þennan í kr. 263.619,-.

Með bréfi til ríkisskattanefndar, dags. 21.9. 1976 kærði umboðsmaður kæranda til lækkunar útsvar, tekjuskatt, sjúkratryggingargjald á þeirri forsendu áð útreikningur skattstjóra á skattskyldum söluhagnaði bifreiðar sé rangur. Taldi hann, að samkvæmt sínum útreikningum ætti umræddur söluhagnaður að vera kr. 223.480,-.

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir:

„Samkvæmt gögnum málsins keypti kærandi Bedford bíl þann, sem um ræðir í kærumáli þessu, 1. júlí 1973 fyrir kr. 430.000,-, ásamt gjaldmæli kr. 16.000,- eða alls kr. 446.000,-. Bókfært verð bílsins við sölu hans 25. nóv. 1975 nam kr. 257.566,- en söluverð kr. 623.873,-. Söluhagnaður nam því kr. 366.307,-.

Fyrning bílsins umfram lágmarksfyrningu á eignarhaldstímanum nam kr. 80.651,-. Söluágóði varð því kr. 285.656,- og telst helmingur hans í þessu tilviki skattskyldur eða kr. 142.828,- ásamt fyrrnefndri umframfyrningu kr. 80.651,- eða alls kr. 223.479,-.

Þykir því mega fallast á kröfu kæranda.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja