Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 485/1992

Gjaldár 1990

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. — 30. gr. 1. mgr. A-liður 1. tl. — 91. gr. 1. mgr. — 92. gr. 1. mgr. — 100. gr. 2. og 5. mgr.  

Skattskyldar tekjur — Launatekjur — Ökutækjastyrkur — Ökutækjakostnaður — Ökutækjaskýrsla — Fylgigögn skattframtals — Launamiði — Upplýsingaskylda — Upplýsingaskylda launagreiðanda — Frávísun — Vanreifun — Frávísun vegna vanreifunar — Endurupptaka máls — Endurupptaka úrskurðar ríkisskattanefndar — Kæruheimild — Kæruheimild ríkisskattstjóra — Kröfugerð ríkisskattstjóra — Kærufrestur — Frávísun kröfu ríkisskattstjóra — Skattframtal, vefenging — Sönnun

Kærð er sú ákvörðun skattstjóra að hækka launatekjur kæranda um 111.583 kr., sem var mismunur á tilgreindum launum í skattframtali kæranda og innsendum launamiða frá launagreiðanda. Voru forsendur skattstjóra þær, að launagreiðandi hefði hvorki óskað eftir leiðréttingu á innsendu launaframtali né lagt fram nýjan leiðréttan launamiða vegna kæranda, sbr. kæruúrskurð skattstjóra, dags. 18. febrúar 1991.

Af hálfu umboðsmanns kæranda var kæruúrskurði skattstjóra skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 19. mars 1991. Segir í kæru umboðsmannsins, að verið væri að afla skriflegrar staðfestingar fyrrum vinnuveitanda á leiðréttingu launamiðans og verði staðfesting hans ásamt nánari greinargerð send nefndinni innan skamms. Með úrskurði nr. 628, dags. 4. júlí 1991, vísaði ríkisskattanefnd kærunni frá að svo stöddu á þeim forsendum, að boðaður rökstuðningur hefði eigi borist nefndinni.

Ríkisskattanefnd hefur borist staðfesting vinnuveitanda kæranda og er hún dags. 10. apríl 1991. Segir í bréfinu, að þau mistök hefðu átt sér stað við útfyllingu launamiða að greiddum ökutækjastyrk 111.583 kr. hefði verið bætt við laun kæranda. Hefði kærandi sjálfur farið með leiðréttan launamiða til skattstofu ásamt skýringarbréfi.

Með bréfi, dags. 17. september 1991, hefur ríkisskattstjóri gert svofellda kröfu í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans. Þess er að auki krafist að kostnaður á móti ökutækjastyrk verði ekki metinn frádráttarbær þar sem fylgiskjal RSK 3.04 er alls ófullnægjandi útfyllt.“

Rétt þykir að taka framkomna staðfestingu sem beiðni um endurupptöku á úrskurði nr. 628/1991. Að virtum fyrirliggjandi gögnum er fallist á kröfu kæranda. Kröfu ríkisskattstjóra varðandi kostnað á móti ökutækjastyrk er vísað frá, þar sem liðinn er sá frestur, sem tilgreindur er í 2. mgr. 100. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja