Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 482/1976

Gjaldár 1975

Lög nr. 68/1971, 7. gr. E-liður  

Söluhagnaður/makaskipti

Málavextir voru þeir, að með kaupsamningi dags. 20. maí 1974 keypti kærandi húseignina nr. 53 við X-braut í Keflavík af eigendum hennar, sem voru tveir. Kaupverð eignarinnar var umsamið kr. 8.000.000,- og auk útborgunar greiddi kærandi það sumpart með því að taka að sér greiðslu áhvílandi skulda og sumpart með því að gefa út skuldaskjöl fyrir eftirstöðvunum. Kærandi fékk afsal fyrir eigninni 25. júní 1974. Með kaupsamningi dags. 16. desember sama ár seldi kærandi öðrum fyrrverandi eiganda X-brautar 53 húseign sína nr. 32 við Y-teig í Keflavík, sem þá var í smíðum og óíbúðarhæf fyrir kr. 3.000.000,-. Virðist söluverð þeirrar eignar hafa að mestu runnið til lúkningar þeim skuldbindingum er kærandi tókst á hendur við kaupin á X-braut 53.

Hagnaður af sölu Y-teigs 32 nam kr. 1.576.834,- og skattlagði skattstjóri þann söluhagnað með öðrum tekjum ársins 1974. Kærandi krafðist niðurfellingar þessa skattauka og bar fyrir sig að hann hafi látið húseignina af hendi í makaskiptum fyrir aðra húseign.

Ríkisskattanefnd taldi eigi unnt að fallast á að makaskipti hefðu átt sér stað á eignunum og staðfesti úrskurð skattstjóra.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja