Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 1139/1978
Gjaldár 1975
Lög nr. 68/1971, 7. gr. E-liður
Söluhagnaður íbúðarhúsnæðis/íbúðarhæfi
Málavextir voru þeir, að skattstjóri hækkaði tekjur kæranda gjaldárið 1975 um kr. 1.110.000,- vegna hagnaðar af sölu íbúðar við H-götu í Reykjavík, er kærandi átti að hálfu. Skattstjóri taldi, að kærandi hefði ekki fullnægt ákvæðum E-liðar 7. gr. laga nr. 68/1971 varðandi öflun annars húsnæðis í stað hins selda með því að á hafi skort um íbúðarhæfi þess.
Samkvæmt framtali kæranda árið 1977 festi hann kaup á 1/3 hluta húseignar í smíðum við F-götu í Reykjavík. Samkvæmt framtali árið 1978 hafði kærandi lagt á árinu 1977 kr. 867.305,- í húsið.
Í kærubréfi umboðsmanns kæranda til ríkisskattanefndar segir m.a.:
„Telja verður að þar sem á árinu 1977 var lokið við að pússa húsið að innan og hitalögn að fullu frágengin hafi byggingu þess verið komið svo langt að það teljist íbúðarhæft og því hafi umbjóðandi minn uppfyllt skilyrði E-liðar 7. gr. laga nr. 68/1971 um skattfrjálsan söluhagnað af íbúðarhúsnæði.“
Var gerð krafa um, að fallið yrði frá skattlagningu söluhagnaðarins.
Ríkisskattanefnd staðfesti úrskurð skattstjóra með vísun til forsendna hans.