Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 68/1976

Gjaldár 1973

Lög nr. 68/1971, 9. gr.  

Skattlagning varasjóðs

Málavextir voru þeir, að sameignarfélag nokkurt hætti rekstri sínum hinn 31. des. 1972. Við rekstrinum tók samnefnt hlutafélag. Voru eignir á bókfærðu verði, svo og skuldir og varasjóður sameignarfélagsins yfirfært á nafn hlutafélagsins. Skattstjóri taldi, að við slit sameignarfélagsins bæri að skattleggja varasjóð þess, sem myndaður var af skattfrjálsum

framlögum auk þess sem beita bæri 20% álagi sbr. 9. gr. skattalaga. Kröfu sína um skattfrjálsa yfirfærslu varasjóðs byggði kærandi á ákvæðum 8. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt, en þar kveður á um skattalega meðferð við slit hlutafélags vegna samruna þess við annað hlutafélag.

Ríkisskattanefnd taldi að ekki væri að finna í skattalögum hliðstæða heimild til handa sameignarfélögum og bæri því að synja kröfu kæranda, þó þannig að ekki var talið rétt að beita viðurlögum á varasjóðstillag skattárið 1972.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja