Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 24/1976

Gjaldár 1974

Lög nr. 68/1971, 9. gr., 17. gr.  

Skattskyld ráðstöfun varasjóðs

Hlutafélag nokkurt gjaldfærði á rekstrarreikningi arð til hluthafa kr. 155.520,-. Rekstrarhalla kr. 275.455,- jafnaði gjaldandi síðan með skattfrjálsum varasjóði. Taldi skattstjóri, að með hliðsjón af höfuðstóli frá fyrra ári hefði í ráðstöfun varasjóðs falist greiðsla til hluthafa að fjárhæð kr. 83.593,- og reiknaði þá fjárhæð til skattgjaldstekna að viðbættu 20% álagi.

Í greinargerð frá umboðsmanni kæranda segir:

„Hvað varðar frádráttarhæfni arðgreiðslna er af hálfu umbj. míns talið, að ótvírætt sé, að arður innan við 10% af nafnverði hlutafjár sé frádráttarbær sem rekstrargjöld, sbr. 1. mgr. 17. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt. Þá er einnig vísað til þess, að í 9. gr. greindra laga er ótvírætt tekið fram í B-lið, að arðsúthlutun sem sé meiri en 10% af bókfærðu eigin fé félags varði skattlagningu varasjóðs. Slíkt ákvæði verður að skilja á þann veg, að útborgun arðs, sem eru undir greindu marki varði ekki skattlagningu varasjóðs eða höfuðstóls.“

Ríkisskattanefnd úrskurðaði svo um þetta atriði:

„Svo sem áður greindi færði kærandi hinn greidda arð kr. 155.520,- til gjalda á reikningi varasjóðs innifalið í „rekstrarhalla“ kr. 275.455,-. Eftir 9. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt ber að telja þessa fjárhæð til skattskyldra tekna að viðbættu 20% álagi eða samtals kr. 186.600,-. Hinsvegar kemur arðgreiðsla þessi ekki til frádráttar, sbr. 7. mgr. 17. gr. sömu laga.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja