Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 328/1976
Gjaldár 1975
Lög nr. 68/1971, 10. gr. G-liður
Fæði rafvirkja
Kröfur kæranda voru þær, að honum yrðu heimilaðar kr. 200,- hvern virkan dag eða kr. 48.000,- alls vegna fæðispeninga, sem hann hafi fengið greidda frá vinnuveitanda. Kveðst kærandi fullnægja ákvæði um hæsta leyfilegan frádrátt og sé krafan á því byggð.
Af hálfu ríkisskattstjóra var þess krafist að kærunni yrði vísað frá. Ekki voru fyrirliggjandi nægilega glöggar upplýsingar um fæðispeningana og greiðslu þeirra til þess að taka mætti kröfuna til greina.
Í úrskurði ríkisskattanefndar segir:
„G-liður 10. gr. laganna um tekjuskatt og eignarskatt, eins og hann nú er, kom inn með lögum nr. 30/1971. Frumvarpsgreinin var svohljóðandi:
„Fæði, er sjómenn á skipum og aðrir launþegar, er vinna utan heimilissveitar sinnar, fá hjá vinnuveitendum sínum. Sama gildir um fæðisstyrk, ef eigi er um fullt dagsfæði að ræða.“
Í athugasemd við greinina segir m.a.:
„Gerð er tillaga um, að fæði launþega, sem hann fær hjá vinnuveitanda sínum skv. kjarasamningum eða venju, þegar hann starfar fjarri heimili sínu, verði skattfrjálst. Í núgildandi lögum á þetta einungis við um sjómenn.“
Síðari málslið greinarinnar var í meðförum Alþingis breytt þannig:
„Sama gildir, þótt unnið sé innan heimilissveitar, ef eigi er um fullt fæði að ræða eða samsvarandi hæfilegan fæðisstyrk í þess stað.“
Ekki er ástæða til að draga í efa, að kærandi hafi unnið samkvæmt kjarasamningi Landssambands íslenskra rafverktaka og Rafiðnaðarsambands Íslands. Í 3. tl. 1. gr. þessa samnings er samið um sérstaka greiðslu til handa starfsmanni vegna ferða og fæðis. Þykir því með hliðsjón af því, sem að framan er rakið, bera að taka kröfu kæranda til greina, þó svo að frádráttur veitist aðeins miðað við 1. mars 1974.“