Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 497/1992

Gjaldár 1987

Lög nr. 73/1980 — 36. gr.   Lög nr. 75/1981 — 2. gr. 1. mgr. 3. tl. og 2. mgr. — 96. gr. 1. og 4. mgr. — 99. gr. 1. mgr. 1. ml.  

Sameignarfélag — Lögaðili — Skattskylda — Skattskylda sameignarfélags — Sjálfstæð skattskylda sameignarfélags — Skattaleg meðferð tekna og eigna sameignarfélags, sem ekki er sjálfstæður skattaðili — Aðstöðugjald — Aðstöðugjaldsskylda — Aðstöðugjaldsskylda sameignarfélags, sem ekki er sjálfstæður skattaðili — Kærufrestur — Kæra, síðbúin — Síðbúin kæra — Frávísun — Frávísun vegna síðbúinnar kæru — Kæra, tilefnislaus — Tilefnislaus kæra — Frávísun vegna tilefnislausrar kæru — Endurákvörðun — Endurákvörðun skattstjóra — Endurákvörðun, framkvæmd ferst fyrir — RIS 1988.51

Málavextir eru þeir, að eftir bréfaskipti ákvað skattstjóri að færa til skattlagningar í skattframtali kærenda árið 1987 50% í tekjum og eignum X sf., í samræmi við eignararaðild þeirra í félaginu. Er tekið fram að ársreikningur X og greinargerð um aðstöðugjaldsstofn séu lögð til grundvallar ákvörðun skattstofna. Kirkjugarðsgjald og aðstöðugjald sé lagt á sameignarfélagið sjálft vegna rekstrar þess, sbr. 36. gr. laga nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga, og úrskurð ríkisskattanefndar nr. 51/1988, þannig að gjaldstofnar verði óbreyttir.

Af hálfu kærenda var endurákvörðun skattstjóra kærð til hans með kæru, dags. 23. febrúar 1990. Segir í kærunni, að kærendur hafi ekki fengið í hendur tilgreinda álagningu. Fari þau fram á, að tilkynning um álagningu verði send til þeirra. Á meðan standi mótmæli þeirra óbreytt. Ennfremur vísa þau til fyrra svarbréfs síns, dags. 23. febrúar 1990, en í því bréfi komi fram, að rekstri X sf. hafi verið hætt í árslok 1986, en skattframtal félagsins hafi verið sent skattstjóra. Í ársreikningi félagsins hafi skuldir félagsins umfram eignir hinn 31. desember 1986 verið 244.929 kr. Kæra kærenda sætti frávísun af hálfu skattstjóra með úrskurði hans, dags. 11. maí 1990. Voru forsendur skattstjóra þær, að kæran hefði ekki borist honum á tilsettum tíma. Kærufrestur hefði runnið út hinn 20. apríl 1990, en kæran borist skattstjóra þann 23. apríl 1990.

Af hálfu kærenda hefur frávísunarúrskurði skattstjóra verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 8. júní 1990. Er í kærunni vísað til fyrri bréfaskipta í málinu og mótmæla kærendur „fyrirhugaðri endurálagningu árin 1987, 1988 og 1989.“

Með bréfi, dags. 22. apríl 1991, hefur ríkisskattstjóri gert svofellda kröfu í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Að frávísunarúrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.

Telji ríkisskattanefnd hins vegar að taka beri málið til efnislegrar meðferðar er þess krafist að ákvörðun skattstjóra dags. 21. mars 1990 um endurákvörðun opinberra gjalda árið 1987 standi óbreytt með vísan til þeirra forsendna er þar koma fram. Endurákvörðun skattstjóra nær ekki til áranna 1988 og 1989.“

Að virtum öllum málavöxtum er frávísunarúrskurði skattstjóra hnekkt og málið tekið til efnislegrar meðferðar. Eigi verður af gögnum málsins ráðið að endurákvörðun opinberra gjalda, sem boðuð var í bréfi skattstjóra, dags. 15. febrúar 1990, hafi komið til framkvæmda. Að svo vöxnu þykir bera að vísa kröfu kærenda frá sem tilefnislausri.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja