Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 89/1976
Gjaldár 1975
Lög nr. 68/1971, 10. gr. H-liður
Alþjóðastofnanir
Kærandi var starfsmaður F.A.O. erlendis samfleytt í 15 ár. Samkvæmt gögnum málsins greiddi hann 7% af launatekjum sínum frá F.A.O. í lífeyrissjóð Sameinuðu þjóðanna (United Nations Joint Staff Pension Fund). Mótframlag F.A.O. í sjóðinn var hins vegar 14% af launatekjum kæranda. Kærandi lét af störfum hjá F.A.O. 3.1. 1973. Samkvæmt skattframtali kæranda 1975 fékk hann á árinu 1974 greiðslu frá F.A.O. sem nam í ísl. kr. 3.046.147,-. Skattstjóri gerði kæranda að greiða tekjuskatt og útsvar af þessari fjárhæð. Kærandi telur meginhluta fjárhæðarinnar eða kr. 2.633.096,- vera endurgreiðslu á 7% framlagi sínu til fyrrnefnds sjóðs ásamt vöxtum af því framlagi. Afgang fjárhæðarinnar kr. 413.050,- segir kærandi vera eftirlaun úr lífeyrissjóði Sameinuðu þjóðanna. Sé sú eftirlaunagreiðsla byggð á áðurnefndu 14% mótframlagi F.A.O. til sjóðsins.
Kærandi gerði þá kröfu, að skattskyldar tekjur í framtali sínu 1975 væru lækkaðar um kr. 2.633.096,-.
Í úrskurði ríkisskattanefndar segir:
„Svo sem áður greinir fékk kærandi endurgreitt sitt eigið framlag til lífeyrissjóðs Sameinuðu þjóðanna. Framlag þetta greiddi kærandi af launatekjum sínum hjá F.A.O. Af þeim launum var kærandi ekki skattskyldur hér á landi. Þykir því ekki vera fyrir hendi heimild til að gera kæranda að greiða skatt af téðri inneign samanber einnig H-lið 10. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt. Þykir því mega taka kröfu kæranda til greina.“