Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 531/1976
Gjaldár 1975
Lög nr. 68/1971, 11. gr.
Landbúnaður
Kærandi hafði á árinu 1974 keypt nokkur stóðhross. Krafðist hann þess að fá mismun kaupverðs og matsverðs stóðhrossanna til frádráttar og studdi þá kröfu sína þeim rökum að um frádrátt frá tekjum af landbúnaði giltu yfirleitt sömu reglur og um frádrátt frá öðrum atvinnurekstri eftir því sem við ætti, sbr. C-lið 17. gr. reglugerðar nr. 245/1963. Ríkisskattstjóri tók fram í athugasemdum sínum, að yfirleitt giltu sömu reglur um landbúnað og aðrar atvinnugreinar, eftir því sem við ætti, en í þessu tilviki væri um að ræða sérreglur skv. reglugerð, er vörðuðu ákvörðun skattmats tekna af landbúnaði.
Ríkisskattanefnd hafnaði frádráttarkröfum kæranda með vísan til 17. gr. reglugerðarinnar B-liðs 3. tl., er hefur að geyma reglur um, hvernig finna skuli bústofnsauka eða eftir atvikum bústofnsskerðingu.