Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 732/1977
Gjaldár 1976
Lög nr. 68/1971, 11. gr.
Skaðabætur/rekstrarútgjöld
Með bréfi dags. 28.10. 1976 til skattstjóra fór kærandi þess á leit að bótakrafa starfsmanns nokkurs vegna slyss, er hann varð fyrir í vinnu hjá kæranda þann 15. des. 1975 komi til frádráttar á skattframtali kæranda gjaldárið 1976. Skattstjóri hafnaði erindinu, en í forsendum úrskurðar skattstjóra segir m.a.:
„Eins og að framan greinir varð umrætt slys þann 15.12. 1975. Niðurstaða örorkumats liggur ekki fyrir, fyrr en 2.7. 1976, sbr. ljósrit af bréfi Björns Önundarsonar, tryggingalæknis, sem félagið (kærandi) leggur fram með erindi sínu. Formlega bótakröfu er því ekki hægt að gera á hendur fyrirtækinu, fyrr en á árinu 1976. Skv. ákvæðum skattalaga myndast réttur til frádráttar, þegar kostnaður er áfallinn þ.e. eigi skiptir máli, hvort hann er greiddur í lok reikningsárs. Skattstjóri telur því framangreindar slysabætur eigi áfallnar, fyrr en á árinu 1976 og verði því að hafna framkomnu erindi af þeim sökum.“ Með bréfi til ríkisskattanefndar, dags. 14.12. 1976 fór kærandi þess á leit að fá að telja helming kröfunnar til gjalda á árinu 1975.
Í úrskurði ríkisskattanefndar segir:
„Með hliðsjón af ákvæðum A-liðs 11. gr. laga nr. 68/1971 um tekjuskatt og eignarskatt, er krafa kæranda tekin til greina, þó þannig að öll fjárhæðin komi til frádráttar í framtali gjaldárið 1976.“