Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 495/1978
Gjaldár 1976
Lög nr. 68/1971, 11. gr.
Vextir - Ábyrgð
Málavextir voru þeir, að kærandi og annar maður seldu hlutabréf sín í útgerðarfélagi nokkru. Jafnframt tókust þeir á hendur ábyrgð á skuldbindingum félagsins að hluta.
Með dómi bæjarþings Keflavíkur uppkveðnum 24. maí 1971 voru þeir dæmdir persónulega vegna ábyrgðarinnar til greiðslu á kr. 370.809,- auk 6% ársvaxta frá 18. okt. 1966. Skuld þessa greiddu dómþolar 5. nóv. 1975 með kr. 450.000,- sem heildargreiðslu og hafði þá verið slegið nokkuð af höfuðstól og vöxtum. Eru heildarvextir taldir hafa numið kr. 199.800,- áður en afsláttur er veittur.
Í úrskurði ríkisskattanefndar segir:
„Ekki er fyrir hendi heimild til frádráttar á höfuðstól skuldarinnar, en hins vegar má fallast á það með kæranda, að honum beri réttur til frádráttar á vöxtum af henni. Eins og málið liggur fyrir verður ekki komið við beinum tölulegum útreikningi á vaxtafjárhæðinni, en með hliðsjón af málavöxtum þykir vaxtafrádrátturinn hæfilega ákveðinn kr. 80.000,-.“