Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 498/1992

Virðisaukaskattur nóv.-des. 1990

Lög nr. 50/1988 — 29. gr. — 42. gr. 2. mgr.   Reglugerð nr. 449/1990 — II. og IV. kafli  

Virðisaukaskattur — Endurgreiðsla virðisaukaskatts — Endurgreiðsla virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði — Kæruheimild — Kæranleg skattákvörðun — Kæranleiki — Virðisaukaskattur, synjun skattstjóra um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði verður ekki skotið til ríkisskattanefndar — Frávísun — Frávísun, mál utan valdsviðs — Valdsvið ríkisskattanefndar

Kærð er synjun skattstjóra um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna viðhalds íbúðarhúsnæðis.

Málavextir eru þeir, að kærandi, sem er húsfélag skv. lögum um fjölbýlishús, lagði fram umsókn, dags. 21. janúar 1991, til skattstjóra um endurgreiðslu virðisaukaskatts vegna vinnu á byggingarstað við viðhald íbúðarhúsnæðis. Tók umsóknin til tímabilsins nóv/des. 1990. Kærandi taldi sér bera réttur til endurgreiðslu á 72.603 kr. Verk það, sem um var að ræða, var háþrýstiþvottur. Hinn 7. febrúar 1991 synjaði skattstjóri kröfu kæranda um endurgreiðslu skattsins á þeim forsendum, að um vélavinnu væri að ræða, er ekki félli undir endurgreiðslu, sbr. 4. gr. reglugerðar nr. 449/1990, um endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnu manna við íbúðarhúsnæði.

Fyrrgreindri synjun skattstjóra hefur af hálfu kæranda verið skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 5. mars 1991. Krefst kærandi þess, að umræddur virðisaukaskattur verði endurgreiddur með skírskotun til 2. gr. bráðabirgðalaga nr. 85/1990, sbr. lög nr. 109/1990. Réttur til endurgreiðslu væri ótvíræður skv. þessari lagaheimild og fengju ákvæði 4. gr. reglugerðar nr. 449/1990 því ekki breytt. Þá mótmælti kærandi því að eingöngu hefði verið um vélavinnu að ræða. Í því sambandi gerði kærandi grein fyrir verkinu og sundurliðaða grein fyrir greiðslu fyrir háþrýstiþvottinn í bréfi, dags. 20. mars 1991.

Af hálfu ríkisskattstjóra eru með bréfi, dags. 30. desember 1991, gerðar svofelldar kröfur í málinu:

„Að kærunni verði vísað frá ríkisskattanefnd þar sem ekki hefur verið kveðinn upp úrskurður skattstjóra sem kæranlegur er til hennar, skv. ákvæðum 29. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með áorðnum breytingum. Ríkisskattstjóri lítur svo á að afgreiðsla skattstjóra á endurgreiðslubeiðni samkvæmt reglugerð nr. 449/1990 sæti ekki kærumeðferð 29. gr. virðisaukaskattslaga, enda verður ekki talið að endurgreiðslur þessar feli í sér „ákvörðun skattstjóra á virðisaukaskatti“ í skilningi þeirrar lagagreinar. Með þessu orðalagi er augljóslega vísað til ákvarðana skattstjóra skv. 5., 25. og 27. gr. laganna, þ.e. um skráningarskyldu (skattskyldu) aðila og fjárhæð virðisaukaskatts sem skráningarskyldum aðilum ber að innheimta og standa skil á til ríkissjóðs. Skal á það bent að endurgreiðslur samkvæmt reglugerð nr. 449/1990 snúa ekki nema að hluta að aðilum sem skráningarskyldir eru samkvæmt virðisaukaskattslögum. Í virðisaukaskattslögum er ekki kveðið á um hver skuli annast framkvæmd endurgreiðslna skv. XIII. kafla þeirra. Ekki verður séð að það að ráðherra feli skattstjóra með reglugerð framkvæmd endurgreiðslna leiði sjálfkrafa til þess að kæruleiðir skattalaga gildi um afgreiðslur mála. Er og sbr. að framkvæmd reglugerðar nr. 470/1991 (áður nr. 532/1989), um endurgreiðslu virðisaukaskatts til sendimanna erlendra ríkja, er í höndum utanríkisráðuneytisins og framkvæmd reglugerðar nr. 500/1989, um endurgreiðslu fríhafnarinnar á Keflavíkurflugvelli.

Telji ríkisskattanefnd að afgreiðsla skattstjóra sé kæranleg skv. 29. gr. virðisaukaskattslaga, þrátt fyrir framangreindar röksemdir, er ljóst að ekki hefur verið kveðinn upp kæruúrskurður skattstjóra skv. 1. mgr. 29. gr.“

Samkvæmt 1. mgr. 29. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum, geta þeir, sem ekki vilja sætta sig við ákvörðun skattstjóra á virðisaukaskatti kært skattinn til hans innan þrjátíu daga frá því er skatturinn var ákveðinn. Skal skattstjóri kveða upp rökstuddan úrskurð um kæru og tilkynna hann í ábyrgðarbréfi innan þrjátíu daga frá lokum kærufrests. Í 2. og 3. mgr. lagagreinar þessarar er fjallað um heimildir til þess að skjóta úrskurðum skattstjóra til ríkisskattanefndar. Í kröfugerð ríkisskattstjóra í máli þessu eru reifuð þau sjónarmið, að slíkar endurgreiðslubeiðnir, sem um ræðir í máli þessu sæti ekki þeirri kærumeðferð, sem fyrr er getið, og eigi því ekki undir valdsvið ríkisskattanefndar. Á það verður að fallast með ríkisskattstjóra að eigi sé í máli þessu um slíkan ágreining að tefla, er falli undir kærumeðferð samkvæmt nefndri 29. gr. laga nr. 50/1988, um virðisaukaskatt, með síðari breytingum. Að því virtu og með skírskotun til þess, sem fram kemur í kröfugerð ríkisskattstjóra viðvíkjandi kæruheimild vegna ágreinings um slíkar endurgreiðslur, sem um ræðir í máli þessu, þykir bera að vísa kærunni frá ríkisskattanefnd.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja