Úrskurður yfirskattanefndar

  • Vaxtabætur
  • Eigin not íbúðarhúsnæðis

Úrskurður nr. 459/1997

Gjaldár 1995

Lög nr. 75/1981, 69. gr. C-liður (brl. nr. 122/1993, 9. gr., sbr. brl. nr. 30/1995, 4. gr.).   Reglugerð nr. 379/1995, 4. gr.  

Fallist á kröfu kærenda um vaxtabætur árið 1995, en þau höfðu haft tímabundna búsetu á vinnustað annars þeirra að kröfu vinnuveitanda.

I.

Kærð er sú breyting skattstjóra að færa tilgreind 222.762 kr. vaxtagjöld vegna íbúðarkaupa úr reit 87 í reit 88 á skattframtali kærenda árið 1995.

Forsaga máls þessa er sú að skattstjóri gerði samskonar breytingar á skattframtali kærenda árið 1992, sbr. kæruúrskurð hans, dags. 2. nóvember 1992, á þeim forsendum að kærendur ættu ekki rétt til vaxtabóta þar sem þau byggju ekki í viðkomandi húsnæði. Kærendur undu ekki þeirri ákvörðun og skutu kæruúrskurði skattstjóra til yfirskattanefndar með kæru, dags. 30. nóvember 1992. Yfirskattanefnd féllst á kröfu kærenda um vaxtabætur gjaldárið 1992 með úrskurði nr. 704/1994 á þeim forsendum að með hliðsjón af framlagðri yfirlýsingu frá vinnuveitanda kæranda, eiginkonu, yrði ekki talið að hin tímabundnu atvik sem gerð væri grein fyrir í yfirlýsingu vinnuveitanda ættu að hafa þau áhrif að kærendum væri synjað um vaxtabætur vegna álagningar opinberra gjalda kærenda umrætt gjaldár. Í nefndri yfirlýsingu vinnuveitanda kom fram að kærendur byggju tímabundið að ósk vinnuveitanda í starfsmannabústað að X, en mikilvægt væri talið fyrir starfsemi stofnunarinnar að fólk með fagmenntun byggi í grennd við hana og gæti með stuttum fyrirvara sinnt verkefnum sem upp kynnu að koma utan hefðbundins vinnutíma. Skattframtal kærenda árið 1993 liggur ekki fyrir í málinu en á skattframtali kærenda árið 1994 voru vaxtagjöld vegna íbúðarkaupa færð í reit 88 og við álagningu opinberra gjalda það gjaldár voru kærendum því ekki ákvarðaðar vaxtabætur. Umboðsmaður kærenda kærði álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1994 með kæru til skattstjóra, dags. 26. ágúst 1994. Gerði hann kröfu um að tilgreind vaxtagjöld vegna íbúðakaupa yrðu færð úr reit 88 í reit 87 á skattframtali kærenda 1994 og að kærendum yrðu ákvarðaðar vaxtabætur í samræmi við það. Vísaði umboðsmaður í því sambandi til nefnds úrskurðar yfirskattanefndar vegna gjaldársins 1992. Skattstjóri hafnaði kröfu kærenda með kæruúrskurði, dags. 21. nóvember 1994. Segir svo í kæruúrskurðinum:

„Eitt af skilyrðum til úthlutunar vaxtabóta felur það í sér að viðkomandi búi í þeirri íbúð er hann fær úthlutaðar vaxtabætur fyrir, sbr. 1. tl. 3. mgr. 69. gr. C-liður laga nr. 75/1981. Í tilviki kærenda er ekki hægt að líta á, að um tímabundið ástand sé að ræða, þar sem að þau hafa átt lögheimili að X óslitið síðan 15. nóvember 1990. Jafnframt má ætla að [eiginkona] haldi áfram starfi sínu hjá stofnuninni, en ekki hefur verið sýnt fram á að um tímabundið starf sé að ræða, né að væntanleg starfslok séu fyrirhuguð. Gera má því ráð fyrir búsetu kærenda áfram í starfsmannaíbúð X.

Varðandi úrskurð yfirskattanefndar, þá á hann aðeins við um gjaldárið 1992, en í honum er fallist á að um tímabundið ástand sé að ræða varðandi það gjaldár, þar sem einungis er liðið rúmlega ár frá brottflutningi úr íbúð. Eigi verður annað sé en að ástand sé óbreytt í dag varðandi búsetu og getur það varla talist tímabundið lengur."

Næst gerist það í málinu að með bréfi, dags. 24. júlí 1995, tilkynnti skattstjóri kærendum með vísan til 95. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, að hann hefði fært tilgreind vaxtagjöld vegna íbúðarkaupa úr reit 87 í reit 88 á skattframtali kærenda árið 1995. Vísaði skattstjóri í því sambandi til úrskurðar síns, dags. 21. nóvember 1994, vegna samskonar breytinga á skattframtali kærenda árið 1994. Var álagningu opinberra gjalda kærenda gjaldárið 1995 hagað í samræmi við það.

Kærendur mótmæltu breytingum skattstjóra í kæru, dags. 28. ágúst 1995. Vísuðu þau til fyrrnefnds úrskurðar yfirskattanefndar nr. 704/1994. Kváðu þau búsetu að X hafa verið kvaða- og tímabundna og ósanngjarnt að mismuna skattþegnum á þann hátt að tímabundin búseta annars staðar en í eigin húsnæði yrði til þess að vaxtabætur féllu niður, enda væru kærendur nú fluttir frá X.

Skattstjóri hafnaði kröfu kærenda með kæruúrskurði, dags. 13. nóvember 1995, á sömu forsendum og fram komu í kæruúrskurði hans, dags. 21. nóvember 1994. Kvað hann kærendur hafa búið á sama stað um áramótin 1994/1995. Kærendur hefðu átt lögheimili að X óslitið frá 15. nóvember 1990 til 1. júlí 1995, en samkvæmt þjóðskrá flyttu þau þá lögheimili sitt að Z. Virtust kærendur því ekki hafa flutt í íbúð sína að Y og ekkert benti til í kæru kærenda að það húsnæði hefði verið selt.

Umboðsmaður kærenda hefur skotið kæruúrskurði skattstjóra vegna gjaldársins 1995 til yfirskattanefndar með kæru, dags. 12. desember 1995, og gerir kröfu um að kærendum verði ákvarðaðar vaxtabætur. Eru áréttaðar skýringar um ástæður fyrir búsetu þeirra að X. Kveður umboðsmaðurinn kæranda, eiginkonu, hafa starfað hjá stofnuninni tímabundið … Þeirri tímabundnu kvöð um búsetu sé nú lokið, enda hafi kærendur flutt frá starfsmannabúðum við X að Z og jafnframt selt íbúð sína að Y. Kveður umboðsmaðurinn skattstjóra ekki hafa fært rök fyrir því hvað teljist tímabundin búseta, enda sé það ekki skilgreint í lögum. Búsetu í fimm ár á sama stað, sem jafnframt sé kvaðabundin vegna vinnu, megi til sanns vegar færa að sé tímabundin búseta.

Með bréfi, dags. 31. desember 1996, hefur ríkisskattstjóri fyrir hönd gjaldkrefjenda lagt fram svofellda kröfugerð:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra."

II.

Samkvæmt 1. mgr. C-liðar 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, sbr. 9. gr. laga nr. 122/1993 og 4. gr. laga nr. 30/1995, eiga þeir sem skattskyldir eru skv. 1. gr. laga nr. 75/1981 og bera vaxtagjöld af lánum, sem talin hafa verið vegna kaupa eða byggingar á íbúðarhúsnæði til eigin nota, rétt á sérstökum bótum, vaxtabótum. Samkvæmt 5. mgr. C-liðar 69. gr. er réttur til vaxtabóta bundinn við eignarhald á íbúðarhúsnæði til eigin nota. Samkvæmt 6. mgr. sama stafliðar fellur réttur til vaxtabóta niður þegar íbúðarhúsnæði telst ekki lengur til eigin nota. Í 4. gr. reglugerðar nr. 379/1995, um greiðslu vaxtabóta á árinu 1995, segir og að réttur til vaxtabóta sé bundinn við eignarhald á íbúðarhúsnæði til eigin nota. Þá segir að með eigin notum sé átt við að húsnæðið sé nýtt til íbúðar af eiganda þess sjálfum. Sérstakar tímabundnar aðstæður, svo sem nám, veikindi eða atvinnuþarfir sem valdi því að eigandi íbúðarhúsnæðis geti ekki sjálfur nýtt það til íbúðar, leiði þó ekki til þess að hann missi rétt til vaxtabóta. Með tímabundnum aðstæðum sé átt við að eigandi íbúðarhúsnæðis geri líklegt að hann muni innan ákveðins tíma taka húsnæðið aftur til eigin nota.

Í kæru til yfirskattanefndar kemur fram að kærandi, eiginkona, hafi verið … hjá stofnuninni og að kröfu vinnuveitanda síns hafi verið um að ræða tímabundna búsetu þar á staðnum. Þessari íbúðarkvöð sé nú lokið og kærendur hafi flutt í eigin íbúð að Z en jafnframt selt eldra húsnæði sitt. Að þessu virtu þykir bera að fallast á kröfu kærenda, enda þykja ákvæði umræddrar reglugerðar ekki standa í vegi fyrir því. Það athugist og að kærendur fluttu lögheimili sitt að Z hinn 1. júlí 1995 samkvæmt því sem skráð er í þjóðskrá Hagstofu Íslands. Samkvæmt gögnum sem fylgdu skattframtali kærenda árið 1996 var fyrra húsnæði þeirra selt þann 15. júní 1995 og núverandi húsnæði keypt þann sama dag.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja