Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 766/1976

Gjaldár 1975

Lög nr. 68/1971, 12. gr. E-liður  

Fræðibókakaup

Kærandi færði til frádráttar á framtali sínu kr. 102.746,- vegna kaupa á bókum og tímaritum. Leyfði skattstjóri til frádráttar kr. 68.497,-.

Í umsögn ríkisskattstjóra segir m.a. svo:

„Þegar bækur eru keyptar fyrir tugi þúsunda ár eftir ár fer ekki hjá því að um söfnun eigna hlýtur að vera að ræða að hluta. Jafnvel þótt einblínt sé á þróun tækni í heiminum verður ekki hjá þeirri staðreynd gengið að nota má sumar bækur árum saman og svo stórfelld bókakaup, sem flestir virðast komast hjá þótt starfi sjálfstætt sambærilega, er að hluta söfnun.“

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir:

„Af gögnum málsins verður ekki ráðið að ágreiningur sé um að bækur þær og tímarit er í málinu greinir séu þess eðlis að E-liður 12. gr. laga um tekjuskatt og eignarskatt taki til þeirra og eigi heldur að kostnaður vegna þeirra sé eigi studdur nægum gögnum af hendi kæranda. Með vísun til þessa þykir bera að taka kröfu hans til greina að þessu leyti.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja