Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 211/1978
Gjaldár 1977
Lög nr. 68/1971, 13. gr. A-liður
Giftingarfrádráttur
Málavextir voru þeir, að kærandi gekk í hjónaband 10. apríl 1976 en skildi að borði og sæng 19. nóv. s.á. Krafðist hann þess að fá sérstakan frádrátt vegna heimilisstofnunar, en skattstjóri vildi ekki fallast á þá kröfu.
Af hálfu ríkisskattstjóra voru gerðar svofelldar kröfur og athugasemdir:
„Telja verður að skilyrðum A-liðar 1. mgr. 13. gr. laga nr. 68/1971 hafi verið fullnægt við hjúskaparstofnunina. Skilyrðum samsköttunar skv. 1. mgr. 3. gr. laga nr. 68/1971 sbr. 1. mgr. 9. gr. reglugerðar nr. 245/1963 var ekki fyrir að fara hjá kæranda og fyrrverandi eiginkonu hans í árslok 1976.
Telja verður nærlægt að álykta að eðlilegasta leiðin til meðferðar á hinum umkrafða frádrætti sé að heimila helming hans hjá hvoru hjóna um sig. Er því fallist á kröfur kæranda að því marki að kr. 103.950,- komi til frádráttar á framtali hans.“
Féllst ríkisskattanefnd á kröfugerð ríkisskattstjóra.