Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 395/1976

Gjaldár 1975

Lög nr. 68/1971, 13. gr. D-liður  

Lífeyriskaup

Kærð var sú breyting skattstjóra á framtali kæranda gjaldárið 1975 að lækka tilfærðan frádrátt vegna flutnings lífeyrisréttinda úr kr. 143.097,- í 20% þeirrar fjárhæðar eða kr. 28.620,-.

Fram kemur að flutningur lífeyrisréttindanna er tilkominn af þremur ástæðum: 1. vegna skipta á starfi, 2. vegna hagkvæmari réttinda sakir verðtryggingar o.fl. og 3. vegna hagstæðari vaxtakjara á lánum.

Í umsögn ríkisskattstjóra kemur fram, að kærandi hefur orðið að greiða hina umdeildu fjárhæð fyrir aukin réttindi skv. tl. 2 og 3. Er lögð á það áhersla, að ekki sé neinn eðlismunur á þessum lífeyriskaupum og öðrum lífeyrisgreiðslum. Þá segir svo m.a. í umsögn ríkisskattstjóra:

„Fyrir hin auknu réttindi skv. tl. 2 og 3, hefur kærandi orðið að greiða umdeilda fjárhæð. Virðist kærandi því líta þannig á að kaup lífeyrisréttinda séu einungis bundin við að lengja réttindatíma sinn en ekki einnig áðurnefnda verðtryggingu og vaxtakjör. Ekki verður séð að neinn munur sé á réttindakaupum sem fólgin eru í auknum réttindum vegna lengri greiðslutímabils til lífeyrissjóðsins eða réttindakaupum sem fólgin eru í betri kjörum lífeyrisgreiðslna og betri lánakjara miðað við sama greiðslutíma til sjóðsins og er því endurtekin krafan um staðfestingu á úrskurði skattstjóra.“

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir:

„Í lögum um tekjuskatt og eignarskatt er ekki bein heimild til að draga frá tekjum á einu ári greiðslur slíkar, er um ræðir í máli þessu. Hinsvegar þykir með hliðsjón af 3. mgr. D-liðs 13. gr. laganna, sbr. 4. mgr. B-liðs 34. gr. reglugerðar nr. 245/1963 mega heimila hana til frádráttar á 5 árum. Með þessari athugasemd er úrskurður skattstjóra staðfestur.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja