Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 531/1992

Gjaldár 1990

Lög nr. 14/1965 — 2. gr. 1. og 2. mgr. — 4. gr. a.liður   Lög nr. 75/1981 — 7. gr. A-liður 1. tl. 1. og 2. mgr. og B-liður — 92. gr. 1. mgr. — 100. gr. 1. mgr.   Reglugerð nr. 151/1986 — 4. gr. — 5. gr. — 7. gr. — 19. gr. a) liður  

Launaskattur — Launaskattsstofn — Launaskattsskylda — Sjálfstæð starfsemi — Atvinnurekstur — Eigin atvinnurekstur — Reiknað endurgjald — Vinnuframlag við eigin atvinnurekstur — Skólaakstur — Launamiði — Upplýsingaskylda — Upplýsingaskylda launagreiðanda — Launatekjur — Atvinnurekstrartekjur — Vinnusamningur — Verksamningur — Verktakagreiðsla — Atvinnuvegaflokkun Hagstofu Íslands — Hagstofa Íslands, atvinnuvegaflokkun — Kærufrestur — Kæra, síðbúin — Síðbúin kæra

Málavextir eru þeir, að með skattframtali kæranda 1990 fylgdi rekstrarreikningur vegna selds aksturs árið 1989. Voru tekjur samkvæmt rekstrarreikningum 1.430.192 kr. sem voru verktakagreiðslur frá X-hreppi 1.427.192 kr. og frá Y 3.000 kr. Til gjalda var færður rekstrarkostnaður bifreiðar og farsíma 343.115 kr. og reiknað endurgjald 517.440 kr. eða samtals 860.555 kr. Hagnaður var 569.637 kr. Með bréfi, dags. 22. ágúst 1990, kærði kærandi álagningu launaskatts 18.110 kr. á reiknað endurgjald samkvæmt fyrrgreindum rekstrarreikningi. Segir í kærubréfinu, að kærandi vinni einungis hjá ríki og sveitarfélagi við akstur skólabarna á vetrum. Telji kærandi sig því vera launþega, enda gefi sveitarstjóri út launaseðil fyrir öllum tekjum sem inn komi fyrir bifreiðina. Telur kærandi þessa starfsemi allt annars eðlis en hjá leigubifreiðastjórum eða hópferðabifreiðastjórum, þar sem þeir starfi ekki hjá neinum sérstökum vinnuveitanda heldur aki öllu því fólki, sem vilji með þeim aka. Kærandi sé ekki í sérstöku stéttarfélagi og hafi engan samningsrétt gagnvart vinnuveitanda sínum. Menntamálaráðuneytið gefi út aksturstaxta vegna skólabarnaaksturs og greiði kæranda samkvæmt honum. Gjaldskrá Umferðamálaráðs sé með hærri taxta fyrir jafn stóra bifreið og kærandi aki en hópferðabifreiðastjórar hafi samningsrétt að þeirri gjaldskrá.

Með kæruúrskurði, dags. 7. ágúst 1990, synjaði skattstjóri kröfu kæranda, þar sem umræddur launamiði frá X-hreppi væri útgefinn sem verktakagreiðsla og hafi því ekki verið greidd launatengd gjöld vegna þeirra launa. Akstur skólabarna flokkist undir atvinnugrein 713 sem sé launaskattsskyld, sbr. 2. og 3. gr. laga nr. 14/1965, um launaskatt, með síðari breytingum.

Með bréfi, dags. 1. október 1990, hefur kærandi skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar með vísan til röksemda sinna í fyrrgreindri kæru til skattstjóra.

Með bréfi, dags. 8. apríl 1991, hefur ríkisskattstjóri gert svofellda kröfu í málinu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Að kærunni verði vísað frá ríkisskattanefnd þar sem hún er of seint fram komin, en lögmæltur 30 daga kærufrestur skv. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 75/1981 rann út þann 6. september 1990. Kærubréf kæranda barst ríkisskattanefnd hinsvegar ekki fyrr en 2. október 1990. Kærandi þykir ekki hafa sýnt fram á að honum hafi eigi verið unnt að kæra innan þess frests.“

Eftir atvikum þykir mega taka kæruna til efnislegrar úrlausnar. Er frávísunarkröfu ríkisskattstjóra hrundið. Að virtum fyrirliggjandi gögnum í málinu þykir bera að staðfesta úrskurð skattstjóra með vísan til forsendna hans.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja