Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 553/1976

Gjaldár 1975

Lög nr. 68/1971, 14. gr.  

Sjómannafrádráttur

Málavextir voru þeir, að kærandi krafðist fæðisfrádráttar sem sjómaður og 8% frádráttar af beinum tekjum af fiskveiðum, en kærandi var vélstjóri á einu af skipum Hafrannsóknarstofnunarinnar. Taldi hann ráðningarkjör sín sambærileg við ráðningarkjör sjómanna á fiskiskipum, hann væri að vísu á föstum launum, en það væru einnig margir fiskimenn í reynd, þ.e. þeir, sem aðeins fengju tryggingu.

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir:

„Ákvæði 4. og 5. mgr. 14. gr. skattalaga ná einungis til sjómanna á íslenskum fiskiskipum. Hvorttveggja er, að kærandi þarf ekki sjálfur að sjá sér fyrir fæði, en það er skilyrði fyrir þessum frádrætti, að viðkomandi greiði fæði sitt sjálfur, svo og standa tekjur kæranda í engu sambandi við veiði skipsins, enda er útgerð skipsins einungis bundin hafrannsóknum. Ber því að staðfesta hinn kærða úrskurð.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja