Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 37/1976
Gjaldár 1975
Lög nr. 68/1971, 14. gr.
Sjómannafrádráttur
Kærð var sú breyting skattstjóra á framtali kæranda gjaldárið 1975 að fella niður af gjaldahlið framtals tilfærðan frádrátt kr. 10.304,- vegna fæðiskostnaðar á sjó, en hinn umdeildi frádráttur var fyrir tímabil, sem kærandi var skráður landmaður á m/b Framnesi IS 608.
Ríkisskattstjóri taldi að ákvæði 4. mgr. 14. gr. skattalaganna um fæðisfrádrátt næði einungis til þeirra, er lögskráðir væru á skip, en ekki til hlutaráðinna landmanna, þótt þeir fengju hlífðarfatafrádrátt, sérfrádrátt og 10% frádrátt skv. henni (greininni).
Í úrskurði ríkisskattanefndar segir:
„Kærandi var hlutaráðinn beitingamaður og greiddi Aflatryggingasjóður hluta af fæðiskostnaði hans. Þykir hann eiga rétt til hins umdeilda frádráttar, sbr. og starfsreglur ríkisskattstjóra 1975.“