Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 822/1978

Gjaldár 1976

Lög nr. 68/1971, 15. gr. D-liður  

Sérstakar fyrningar - Rekstrarheild

Málavextir voru þeir, að kærandi hafði með höndum starfsemi á sviði fasteignaviðskipta og reksturs fasteigna. Skattárið 1975 varð halli á rekstrinum, sem nam kr. 4.812.471,- skv. rekstrarreikningi. Af þessari upphæð viðurkenndi skattstjóri ekki til frádráttar kr. 3.426.015,- þar sem þessi gjaldaliður væri myndaður vegna sérstakra fyrninga skv. 1. mgr. D-liðs 15. gr., en ekki mætti mynda rekstrarhalla með

því að notfæra sér þessa fyrningarheimild, sbr. 2. mgr. D-liðs 15. gr.

Af hálfu kæranda var aftur á móti bent á, að í heildartekjum á framtali væri m.a. vaxtatekjur af skuldabréfum, kr. 5.869.212,- en verðbréfaeign þessi hefði stofnast vegna sölu á fasteign og sé því um að ræða tekjur, sem myndast hafi vegna atvinnurekstrar hans. Hafi hann, eins og framtöl tveggja síðustu ára beri með sér, verið að selja hlutabréfaeignir sínar og fasteignir til þess að skapa sér sinn eigin atvinnurekstur. Séu vaxtatekjurnar tímabundnar og myndaðar af sama stofni og húsaleigutekjurnar.

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir, að þegar viðskipti kæranda nú og að undanförnu séu skoðuð, þyki rétt að fallast á, að tekjur þær, sem hér skipta máli (húsaleiga og vaxtatekjur) séu tengdar með þeim hætti, að ekki sé grundvöllur til að greina þannig á milli, að aðrar teljast fremur tekjur af atvinnurekstri en hinar. Starfsemi kæranda sé stunduð í atvinnurekstrarskyni og þyki með vísun til þess eiga að taka kröfur hans til greina.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja