Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 810/1978

Gjaldár 1978

Lög nr. 68/1971, 15. gr. D-liður  

Fyrning söluhagnaðar

Málavextir voru þeir, að kærandi og meðeigandi hans keyptu húseignina nr. 22 við N-götu fyrir kr. 4.900.000,-. Voru kaupin gerð á árinu 1974. Húseign þessa leigðu þeir að hluta fyrir radíóverkstæði og verslun og taldist sá hluti hússins 37% af heildareigninni. Hinn hlutinn eða 63% taldist íbúðarhúsnæði. Þann 4. sept. 1975 selja þeir þann hluta og varð ágóði þeirra af sölunni kr. 3.374.509,-. Um svipað leyti og sala á N-götu 22 fór fram keyptu þeir húsið nr. 40 við sömu götu og var kaupverð þess kr. 4.700.000,-. Eftir framlögðu vottorði frá Fasteignamati ríkisins var því sem næst 20% hússins iðnaðarhúsnæði en 80% íbúðarhúsnæði.

Miðað við þau hlutföll var kaupverð iðnaðarhúsnæðisins kr. 700.300,- og var þá búið að taka tillit til lóðarverðs.

Krafa kæranda var, að fá að afskrifa söluágóðann vegna sölunnar á hluta N-götu 22 móti þess hluta kaupverðs N-götu 22 og 40 sem taldist vera það hlutfall af kostnaðarverði þessara tveggja húsa, sem samsvaraði þeim hluta þeirra, sem notaður væri sem iðnaðar- og verslunarhúsnæði og enn væri í eigu hans og félaga hans.

Vitnaði hann til 5. mgr. D-liðs 15. gr. tekjuskattslaga enda taldi hann þessar eignir falla undir 3. tl. C-liðs sömu laga.

Skattstjóri hafnaði þessari kröfu, þar sem hann taldi að raunverulega væri um íbúðarhúsnæði að ræða, þótt það væri tímabundið leigt út til annarra hluta. Ríkisskattanefnd taldi aftur á móti skiptinguna á notkun húshlutanna það glögga, að unnt væri að verða við kröfum kæranda. Kostnaðarverð N-götu 22 sem enn væri í eigu kæranda og félaga hans væri kr. 1.813.000,-. Þar til frádráttar kæmi lóðarverð kr. 542.100,- þannig að til fyrningar kæmi kr. 1.270.900,-.

Samkvæmt þessu ákvarðaðist fyrning svo:

Fyrning á N-götu 22; kr. 1.270.900 - 127.090 = 1.143.810

" " " 40; " 700.300 - 70.030 = 630.270

Fyrning á móti söluhagnaði kr. 1.774.080

og kom helmingur þeirrar upphæðar til frádráttar hjá gjaldanda.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja