Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 644/1976
Gjaldár 1975
Lög nr. 68/1971, 15. gr. D-liður, sbr. 7. gr. E-liður
Fyrningar - Frestun skattskyldu söluhagnaðar
Málsatvik voru þau, að kærandi seldi bát með 2.721.426,-kr. hagnaði. Þá keypti hann annan bát og var kaupverð hans kr. 2.049.000,-. Gerði kærandi kröfu til þess að honum væri heimiluð sérstök fyrning skv. 5. mgr. D-liðs 15. gr. tekjuskattslaga að fjárhæð kr. 1.844.100,- til lækkunar á söluhagnaðinum og frestað yrði skattlagningu á kr. 600.000,- í samræmi við 11. mgr. E-liðs 7. gr. tekjuskattslaganna en kr. 277.326,- komi til skatts gjaldárið 1975.
Skattstjóri vildi ekki fallast á að veita bæði fyrningu skv. 5. mgr. D-liðs 15. gr. tekjuskattslaganna og frestun skv. 11. mgr. E-liðs 7. gr. sömu laga vegna söluhagnaðar af sömu eign. Taldi skattstjóri tilvitnaðar lagagreinar eingöngu vera heimildargreinar og bæri því að túlka þær þröngt. Hafnaði hann kröfu kæranda um frestun skattskyldu.
Ríkisskattstjóri taldi einnig að skattþegn ætti aðeins val milli þessara tveggja leiða en til vara krafðist hann, að frestað yrði öllum hinum skattskylda söluhagnaði, skv. C-lið 7. gr. áðurgreindra laga.
Í úrskurði ríkisskattanefndar segir:
„Telja verður, að heimildarákvæði um frestun skattlagningar söluhagnaðar skv. E-lið 7. gr. skattalaga og ákvæði í D-lið 15. gr. sömu laga um sérstakar afskriftir móti skattskyldum hluta söluhagnaðar hafi verið sett til hagsbóta viðkomandi skattþegnum og megi þeir ráða hvernig þeir haga valinu. Þykir því bera að taka kröfu kæranda til greina, en þó þannig, að frestað verði skattlagningu allrar upphæðarinnar kr. 877.326,-.“