Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 698/1976
Gjaldár 1975
Lög nr. 68/1971, 16. gr.
Meðlag - Barnalífeyrir
Kærandi mótmælti þeirri ákvörðun skattstjóra að reikna kæranda til skattgjaldstekna helming meðlags og barnalífeyris úr alm. tryggingum gjaldárið 1975. Kvaðst kærandi hafa verið einstætt foreldri þar til hann giftist hinn 31. ágúst 1974 og eins hafi verið ástatt hjá eiginkonunni. Taldi kærandi aðeins koma til greina að skattleggja helming meðlags og barnalífeyris, sem til féll eftir 1. sept. 1974, þar sem einstætt foreldri sé undanþegið skattskyldu á barnalífeyri og meðlagi.
Í úrskurði ríkisskattanefndar segir:
„Litið er svo á, að skattlagning barnalífeyris og meðlags, sbr. ákvæði 8. gr. laga nr. 11/1975 um breyting á 16. gr. laga nr. 68/1971 með áorðnum breytingum miðist við hjúskaparstétt viðkomandi, eins og hún er í byrjun þess almanaksárs, þegar skattur er lagður á. Ber því að staðfesta hinn kærða úrskurð.“