Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 532/1992
Gjaldár 1987
Lög nr. 75/1981 — 2. gr. 1. mgr. 5. tl. — 4. gr. 6. tl. — 91. gr. — 92. gr. 1. mgr. — 96. gr. 1. og 2. mgr. — 106 gr. 1. mgr.
Lögaðili — Félag — Skattskylda félags — Skattfrjáls lögaðili — Lögaðili, skattfrjáls — Skattfrelsi — Atvinnurekstur — Framtalsskylda — Upplýsingaskylda — Upplýsingaskylda launagreiðanda — Áætlun — Áætlun skattstofna — Álag — Álag á áætlaða skattstofna — Endurákvörðun — Endurákvörðun skattstjóra — Endurákvörðunarheimild skattstjóra — Fyrirtækjasamvinna — Samvinna fyrirtækja um næturvörslu
Samkvæmt gögnum málsins var kæranda gert að greiða atvinnurekendaiðgjöld og launaskatt vegna gjaldársins 1987 eftir áætluðum gjaldstofnum. Með bréfi, dags. 7. apríl 1988, beindi skattstjóri því til kæranda að hann legði með vísun til 91. og 92. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, fram ársreikning X vegna ársins 1986 og launaframtal 1987 vegna greiddra launa 1986. Með úrskurði, dags. 9. maí 1988, endurákvarðaði skattstjóri opinber gjöld kæranda gjaldárið 1987 skv. 96. gr. fyrrnefndra laga. Byggði skattstjóri endurákvörðunina á því, að umbeðin gögn, þ.e. ársreikningur 1986 og launaframtal 1987 vegna greiddra launa 1986, hefðu ekki verið lögð fram og því væru kæranda áætlaðir eftirtaldir gjaldstofnar:
Stofn til tekjuskatts 50.000 kr.
Stofn til eignarskatts 50.000 kr.
Stofn til aðstöðugjalds 500.000 kr.
Á ofanritaða stofna bætti skattstjóri 25% álagi skv. heimild í 106. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt.
Með bréfi til skattstjóra, dags. 18. júlí 1988, var álagningu opinberra gjalda á kæranda mótmælt. Í því kemur fram að X séu samtök fyrirtækja í Reykjavík. Samtökin hafi verið stofnuð fyrir um 15 árum til þess að gera fyrirtækjunum kleift að kaupa næturvörslu sameiginlega af verktökum fyrir sem lægsta upphæð. Verksvið X hafi í upphafi og sé enn að safna saman á einum stað gjöldum frá um það bil 70 fyrirtækjum og greiða verktökum út í einu lagi skv. reikningi og spara þar með verktökunum þá fyrirhöfn að ganga í hvert og eitt fyrirtæki og innheimta fyrir næturvörsluna. Verktakarnir séu sjálfstæðir atvinnurekendur og hljóti að standa skil á tilheyrandi gjöldum og launaskatti, enda hafi þeir gert ráð fyrir því í tilboðum sínum til fyrirtækjanna sem að X standi. Þá segir ennfremur í fyrrnefndu bréfi til skattstjóra, að X eigi engar eignir og hafi engar tekjur. X hafi engan atvinnurekstur með höndum. X geri það eitt að safna saman áðurnefndum greiðslum til verktakanna þeim til hagræðis. Í lok bréfsins er gerð sú krafa, að engin launagjöld né önnur álagning opinberra gjalda verði lögð á samtökin X frekar en á 15 ára tímabili samtakanna, enda hafi þau engan atvinnurekstur með höndum né neina aðra starfsemi aðra en fundarhöld og afgreiðslu á greiðslum til verktaka.
Skattstjóri tók fyrrnefnt bréf frá kæranda sem kæru. Með úrskurði uppkveðnum þann 5. september 1988 hafnaði skattstjóri kröfum kæranda með svofelldum rökum:
„Að virtri áskorun í fyrirspurnarbréfi skattstjóra dags. 7/4 1988 um framlagningu gagna verður að telja kæru ófullnægjandi rökstudda, sbr. 99. gr. laga nr. 75/1981, en ekki hafa verið lögð fram umbeðin gögn né gerð fullnægjandi grein fyrir þeim atriðum sem um ræðir í nefndu bréfi skattstjóra.“
Úrskurði skattstjóra var af hálfu kæranda skotið til ríkisskattanefndar með kæru, dags. 28. september 1988. Í kærunni eru ítrekaðar sömu kröfur og röksemdir og fram koma í kæru til skattstjóra.
Ríkisskattstjóri hefur með bréfi, dags. 22. ágúst 1989, gert svofelldar kröfur í máli þessu fyrir gjaldkrefjenda hönd:
„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans, enda hafa ekki komið fram nein þau gögn eða málsástæður varðandi kæruefnið sem gefa tilefni til breytinga á ákvörðun skattstjóra.“
Með vísan til þeirra skýringa sem fram hafa komið af hálfu kæranda í málinu og að virtum gögnum þess að öðru leyti þykir bera að taka kröfu kæranda til greina um niðurfellingu hinna álögðu gjalda.