Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 175/1977

Gjaldár 1975

Lög nr. 68/1971, 22. gr. D-liður  

Afskriftir vörubrigða

Ágreiningur reis milli skattyfirvalda og skattþegns um það, hvernig skilja bæri ákvæði skattalaga um afskriftir vörubirgða. Taldi skattþegn, að vörur, sem hefðu verið afhentar kaupanda, teldust til birgða, þótt þær hefðu ekki verið tollafgreiddar eða komnar á sölustað. Skattyfirvöld töldu hins vegar, að vara gæti ekki talist til birgða, fyrr en söluaðili hefði hana til söluráðstöfunar. Til stuðnings þeirri skoðun var bent á D-lið 57. gr. reglugerðar nr. 245/1963.

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir:

„Í lögum um tekju- og eignarskatt, sem í gildi voru, þegar reglugerð nr. 245/1963 var gefin út, var D-liður 22. gr., sem fjallaði um mat á verslunarvörum til eignarskatts þannig:

„Verslunarvörur skal meta eftir því hvað þær kosta komnar í hús eða á sölustað í árslok, enda séu hæfileg afföll leyfð á gölluðum eða úreltum vörum.“

Samsvarandi lagagrein er nú orðuð á eftirfarandi hátt:

„Vörubirgðir verslana og framleiðslufyrirtækja skal meta á kostnaðarverði eða dagverði í lok reikningsárs, að frádregnum afföllum af gölluðum eða úreltum vörum. Frá matsverði þannig reiknuðu er heimilt að draga að hámarki 30% og telja það verð heildarverðmæti birgða .....“

Í athugasemdum, sem fylgdu frumvarpi því, er var stofn að núgildandi reglum um þetta efni sagði m.a. svo um breytingu á D-lið 22. gr.:

„Tillagan sem hér er gerð (þ.e. um afskriftir vörubirgða) miðast við, að æskilegt sé, að svipaðar reglur gildi í þessu efni og tíðkast í nágrannalöndum þannig að heimiluð verði nokkur myndun dulinna fjármuna í birgðum, en henni sett hæfileg mörk. Tillagan, sem hér er gerð, er svipuð og ákvæði, sem um þetta hafa gilt í Danmörku, þannig að heimilaður er viss sveigjanleiki í mati birgða, sem í reynd hefur verið til, en ekki markaður lagarammi eins og hér er gert ráð fyrir.“

Það er upplýst, að danskar reglur heimila fyrirtækjum að afskrifa vörubirgðir, sem þau hafa fengið afhentar í skilningi kaupalaganna, þ.e. vörur, sem hafa verið afhentar farmflytjanda til flutnings til kaupanda. Varan telst til birgða hjá fyrirtækinu, þar til hún hefur á sama hátt verið afhent nýjum kaupanda.

Með tilliti til þess, sem að framan er rakið hvað snertir breytingu á ákvæðum laga um mat vörubirgða verður að telja, að 57. gr. D-liður reglug. nr. 245/1963 hafi misst lagastoð.

Þá verður að telja að brottfall orðanna; „komnar í hús eða á sölustað“ gefi það til kynna að nota skuli einhverjar aðrar viðmiðanir, þegar ákvarða skuli hvað telja skuli til vörubirgða. Tilvísanir í greinargerð til danskra reglna benda einnig í þá átt.

Þar sem að vörubirgðir þær, sem um ræðir í kröfum kæranda, höfðu verið afhentar honum og voru á hans ábyrgð í árslok, eru kröfur hans teknar til greina.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja