Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 234/1976
Gjaldár 1977
Lög nr. 67/1971, 37. gr.
Frávísun - Rangar heimildir skattstjóra
Málavextir voru þeir, að skattstjóri hafði gert þá breytingu á framtali kæranda að lækka til frádráttar greiðslur í lífeyrissjóð án þess að gera honum viðvart. Umboðsmaður kæranda kærði breytinguna og krafðist þess að umræddur frádráttarliður yrði hækkaður að því marki, sem heimild fjármálaráðuneytisins næði til. Skattstjóri vísaði kærunni frá á þeirri forsendu að hún væri of seint fram komin.
Í úrskurði ríkisskattanefndar segir:
„Eins og að framan greinir lækkaði skattstjóri hinn umdeilda frádrátt án þess að tilkynna kæranda þar um. Þessi málsmeðferð gefur til kynna að skattstjóri hafi stuðst við 2. málslið 1. mgr. 37. gr. laga nr. 68/1971 um tekjuskatt og eignarskatt. Í kæru kemur hins vegar fram að þær heimildir sem skattstjóri fór eftir við leiðréttingu framtals reyndust ekki réttar, sbr. gögn er fylgdu kæru. Skattstjóra bar því að taka kæruna til greina þrátt fyrir að kærufrestur var liðinn sbr. 2. mgr. 93. gr. reglugerðar nr. 245/1963.“