Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 193/1976
Gjaldár 1971-1974
Lög nr. 68/1971, 37. gr., sbr. 38. gr.
Vefenging framtals
Bókhaldsgögn sameignarfélags nokkurs voru tekin til athugunar af rannsóknardeild ríkisskattstjóra og félaginu ákveðnir gjaldstofnar að nýju. Um það atriði segir svo í úrskurði ríkisskattanefndar um kæru félagsins:
„Í málinu liggja fyrir ársreikningar kæranda fyrir skattárin 1970-1973 ásamt „framtölum“ fyrir sömu ár, sem öll eru óundirrituð nema framtalið fyrir skattárið 1972. Aðilar eru sammála um, að um bókhaldsóreiðu hafi verið að ræða hjá kæranda á þessum árum. Með tilliti til þessa verða skýrslur hans ekki lagðar til grundvallar við álagningu hinna kærðu gjalda, sbr. einnig Hrd. XLVII, bls. 907. Ber því að ákveða hin kærðu gjöld eftir mati.“