Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 544/1992

Gjaldár 1990

Lög nr. 75/1981 — 7. gr. C-liður 2. tl. 1. mgr. — 30. gr. 2. mgr. — 69. gr. C-liður — 100. gr. 1. mgr.  

Útleiga — Útleiga íbúðarhúsnæðis — Húsaleigutekjur — Íbúðarhúsnæði — Íbúðarlán — Vaxtagjöld — Vaxtabætur — Íbúðarhúsnæði, eigin notkun — Eigin notkun íbúðarhúsnæðis — Eigin notkun — Notkun húsnæðis — Lögheimili — Öflun íbúðarhúsnæðis — Íbúðarhúsnæði, öflun — Greinargerð um vaxtagjöld — Beinn kostnaður — Beinn kostnaður á móti húsaleigutekjum — Þinglýsingarkostnaður — Þinglýsingarkostnaður afsals — Sölukostnaður — Sölulaun — Kærufrestur — Kæra, síðbúin — Síðbúin kæra

I.

Málavextir eru þeir, að kærandi færði í reit 87 í skattframtali sínu árið 1990 276.392 kr. sem vaxtagjöld vegna íbúðarkaupa til ákvörðunar vaxtabóta. Samkvæmt greinargerðum um vaxtagjöld af lánum teknum til öflunar íbúðarhúsnæðis (RSK 3.09) var annars vegar um að ræða vaxtagjöld vegna íbúðar að X, 236.439 kr. og hins vegar vegna íbúðar að Y, 39.953 kr. Fyrrnefndu íbúðina keypti kærandi með kaupsamningi, dags. 14. júní 1988, og seldi með kaupsamningi, dags. 31. ágúst 1989. Síðarnefndu íbúðina keypti kærandi með kaupsamningi, dags. 8. nóvember 1989. Skattframtali kæranda árið 1990 fylgdi rekstraryfirlit vegna útleigu íbúðarinnar að X, fyrir tímabilið 1. janúar til 31. (sic) nóvember 1989. Hreinar tekjur af útleigu þessari námu 129.774 kr. færðar í reit 72 í framtali. Meðal gjaldaliða var „þinglýsing afsals“ 7.392 kr. og sölulaun 29.250 kr.

II.

Í framhaldi af bréfi sínu, dags. 27. apríl 1990, og að fengnu svarbréfi kæranda, dags. 22. maí 1990, tilkynnti skattstjóri kæranda með bréfi, dags. 20. júlí 1990, að sú breyting hefði verið gerð á tilfærðum vaxtagjöldum í reit 87, að vaxtagjöld vegna X, 236.439 kr. væru ekki viðurkennd til ákvörðunar vaxtabóta og því færð í reit 88. Forsendur skattstjóra voru þær, að hér væri ekki um að ræða vaxtagjöld af lánum til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota, sbr. áskilnað C-liðs 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Þá felldi skattstjóri niður af rekstraryfirliti vegna útleigu íbúðarinnar gjaldfærðan þinglýsingarkostnað og sölulaun og hækkaði hreinar tekjur af útleigu í samræmi við það í 166.416 kr. á þeim forsendum, að hér væri ekki um beinan kostnað að ræða, sbr. 2. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt. Endurákvarðaði skattstjóri áður álögð opinber gjöld kæranda gjaldárið 1990 í samræmi við þessar breytingar.

Af hálfu kæranda var breytingum skattstjóra mótmælt í kæru, dags. 10. júní 1990. Vísaði kærandi til þess, að hann hefði gert grein fyrir því í svarbréfi sínu, dags. 22. maí 1990, að íbúðin að X, hefði verið keypt til eigin nota. Í því bréfi hafði komið fram hjá kæranda, að hann hefði haft í hyggju að starfa að iðn sinni á staðnum og keypt íbúðina til eigin búsetu þar. Íbúðin hafi staðið auð sumarið 1988 fyrst eftir kaupin en síðan leigð, enda hefði atvinnuástand ekki verið gott á staðnum. Síðan sagði svo í bréfi þessu: „Íbúðarhúsnæðið er því upphaflega keypt til eigin nota og að miklu leyti voru þau kaup fjármögnuð með skyldusparnaði til kaupa á eigin húsnæði. Íbúðarhúsnæðið að Y er keypt til eigin nota og nýtt af undirrituðum frá afhendingu 01.02. 1990.“ Þá kom fram hjá kæranda, að hann starfaði tímabundið á B. Með kæruúrskurði, dags. 28. september 1990, synjaði skattstjóri kröfum kæranda. Segir svo í úrskurðinum:

„Af fyrirliggjandi gögnum verður ekki ráðið að íbúðin að X hafi verið notuð til íbúðar af kæranda sjálfum. Með vísan til C-liðs 69. gr. laga nr. 75/1981 er kröfu kæranda um vaxtabætur vegna þeirrar íbúðar því synjað.

Sölulaun og þinglýsingarkostnaður telst ekki til þess kostnaðar sem heimilt er að færa til frádráttar húsaleigutekjum, sbr. 2. mgr. 30. gr. laga nr. 75/1981. Þessu atriði kærunnar er því synjað.“

III.

Með kæru, dags. 21. október 1990, hefur kærandi skotið kæruúrskurði skattstjóra til ríkisskattanefndar. Ítrekar kærandi kröfur sínar og vísar til bréfs síns, dags. 22. maí 1990. Getur hann þess til viðbótar, að hann hafi haft svefnstað að X, þann tíma, er hann leitaði eftir atvinnu í plássinu sumarið 1988.

IV.

Með bréfi, dags. 8. mars 1991, hefur ríkisskattstjóri gert svofelldar kröfur í málinu f.h. gjaldkrefjenda:

„Að kærunni verði vísað frá ríkisskattanefnd þar sem hún er of seint fram komin, en lögmæltur 30 daga kærufrestur skv. 1. mgr. 100. gr. laga nr. 75/1981 rann út þann 28. október 1990. Kærubréf kæranda barst ríkisskattanefnd hinsvegar ekki fyrr en 31. október 1990. Kærandi þykir ekki hafa sýnt fram á að honum hafi eigi verið unnt að kæra innan þess frests.

Telji ríkisskattanefnd hinsvegar að taka beri kæruna til efnislegrar meðferðar þrátt fyrir ofangreindan formgalla er þess krafist að úrskurður skattstjóra verði staðfestur með vísan til forsendna hans.“

V.

Eftir öllum atvikum er kæran tekin til efnismeðferðar.

Að virtum öllum málavöxtum þykir kærandi ekki hafa sýnt fram á það, að hann uppfylli skilyrði lokamálsliðs 1. tl. 3. mgr. C-liðs 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, vegna umræddra vaxtagjalda af lánum tilheyrandi íbúð þeirri að X, er hann festi kaup á árið 1988 og seldi árið eftir. Ber því að staðfesta kæruúrskurð skattstjóra varðandi þennan þátt kærunnar. Þá þykir bera að staðfesta kæruúrskurð skattstjóra varðandi hina umdeildu gjaldaliði á rekstraryfirliti vegna útleigu.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja