Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 1120/1978

Gjaldár 1977

Lög nr. 68/1971, 37. gr.  

Framtali vikið til hliðar - Áætlun ríkisskattanefndar

Málavextir voru þeir, að kærandi seldi á árinu 1976 einbýlishús, er hann átti í smíðum. Byggingarkostnaður samkvæmt húsbyggingarskýrslu var kr. 3.455.986,- en söluverð að frádregnum sölulaunum kr. 6.732.000,-. Skattstjóri færði hagnað af sölu þessari kr. 3.276.014,- kæranda til tekna. Í kæru til skattstjóra lagði kærandi fram nýja sundurliðun á byggingarkostnaði, er nam samkvæmt henni kr. 5.300.207,- og fór fram á að hún yrði lögð til grundvallar við ákvörðun söluhagnaðar og að auki yrði tekið tillit til hækkunar byggingarvísitölu á byggingartímanum.

Skattstjóri féllst ekki á kröfur kæranda. Með hliðsjón af lífeyri kæranda samkvæmt framtali hans gjaldárið 1977, gæti uppgefinn byggingarkostnaður það ár ekki staðist og ekki væri heimild til að taka tillit til hækkunar byggingarvísitölu.

Kærandi ítrekaði kröfur sínar í kæru til ríkisskattanefndar og lagði fram upplýsingar frá tengdaföður sínum þess efnis, að hann hefði lánað kæranda kr. 700.000,- á árinu 1976.

Af hálfu ríkisskattstjóra var þess krafist, að úrskurður skattstjóra yrði a.m.k. staðfestur. Ekki yrði séð, að ástæða væri til að vefengja greinargerð um viðbótarbyggingarkostnað sem slíka. Hins vegar yrði á það að líta, að er tekið væri tillit til framkominna upplýsinga um byggingarkostnað, væri lífeyrir kæranda samkvæmt framtali kr. 100.449,-, sem væri afbrigðilega lágt og skýringar kæranda í kæru um lán frá skyldmennum nægðu ekki til að hnekkja því, að framtalið væri í verulegum mæli tortryggilegt.

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir:

„Eins og framtalsgögn kæranda liggja fyrir bæði með tilliti til kostnaðarverðs hinnar seldu húseignar og lífeyris kæranda þykja þau ekki verða lögð til grundvallar skattlagningu. Eftir málavöxtum þykja hreinar tekjur til skatts hæfilega ákveðnar kr. 4.200.000,- og tekjur til útsvars kr. 5.000.000,-.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja