Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 1134/1978

Gjaldár 1977

Lög nr. 68/1971, 38. gr.  

Tilkynning

Með skattbreytingaseðli dags. 17.3. 1978, hækkaði skattstjóri tekjur kæranda um kr. 3.500.000,- vegna ósvaraðs fyrirspurnarbréfs. Þessari hækkun mótmælti kærandi með kæru dags. 30. 3. 1978. Taldi kærandi sig aldrei hafa fengið fyrirspurnarbréfið og samkvæmt ljósriti, er hann hefði aflað sér af bréfinu væri það bæði ódagsett og óundirritað. Jafnframt óskaði kærandi eftir fresti til að afla gagna. Með úrskurði dags. 28.4. 1978 synjaði skattstjóri kærunni á þeim forsendum, að rökstuðningur hefði ekki borist.

Kærandi kærði tekjuáætlunina til ríkisskattanefndar og krafðist þess að hún yrði niður felld.

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir:

„Gögn málsins virðast styðja þá fullyrðingu kæranda, að honum hafi ekki verið sent fyrirspurnarbréf varðandi framtal hans gjaldárið 1977, áður en framtalið var tekið til endurálagningar. Hið gagnstæða er ekki heldur sannað af hálfu skattstjóra eða ríkisskattstjóra. Hækkunin stríðir því á móti 38. gr., sbr. 37. gr. skattalaga og ber því að taka kröfu kæranda til greina.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja