Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 651/1978
Gjaldár 1977
Lög nr. 68/1971, 40. gr, 41. gr.
Frávísun
Kærandi fékk greitt mistalningsfé kr. 127.769,- á árinu 1976. Umboðsmaður kæranda gerði fyrir hans hönd þá kröfu að mistalningsféð yrði dregið frá tekjum við útreikning gjaldstofna til útsvarsálagningar gjaldárið 1977. Skattstjóri hafði synjað kæranda um þennan frádrátt á þeirri forsendu, að hvergi væri að finna heimild fyrir honum í útsvars- og skattalögum.
Af hálfu ríkisskattstjóra var krafist staðfestingar á úrskurði skattstjóra.
Í úrskurði ríkisskattanefndar segir:
„Með því að í máli þessu liggja eigi fyrir upplýsingar um grundvallaratriði þess, svo sem efni samnings milli kæranda og vinnuveitanda hans varðandi greiðslu mistalningsfjár, þykir bera að vísa kærunni frá að svo stöddu.“