Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 53/1977
Gjaldár 1974
Lög nr. 68/1971, 41. gr.
Endurupptaka
Svo stóð á í máli nokkru, að úrskurður skattstjóra var kveðinn upp 22. maí 1975. Áfrýjaði kærandi úrskurðinum með bréfi dags. 8. des. 1975 til ríkisskattanefndar, sem vísaði kærunni frá þar sem of seint hefði verið kært, sbr. 1. mgr. 41. gr. laga nr. 68/1971.
Með bréfi dags. 5. ágúst 1976 óskaði umboðsmaður kæranda eftir því við ríkisskattanefnd, að hún tæki málið upp að nýju og úrskurðaði það að efni til. Gerði hann þá grein fyrir ástæðu þess að eigi var fyrr kært, að hann hefði eigi haft aðgang að framtalsgögnum sínum á skattstofunni, þar sem þau hefðu mislagst. Lýsingu málavaxta var ekki andmælt í umsögn ríkisskattstjóra. Féllst ríkisskattanefnd á, með hliðsjón af málavöxtum, að taka málið til efnisúrlausnar.