Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 1065/1978
Gjaldár 1977
Lög nr. 68/1971, 41. gr.
Endurupptaka efnisúrskurðar vegna nýrra upplýsinga
Kærandi, sem var hlutafélag, taldi ekki fram á réttum tíma gjaldárið 1977. Með kæru til ríkisskattanefndar sendi kærandi skattframtal sitt fyrir þetta gjaldár og krafðist þess, að framtalið yrði lagt til grundvallar álagningu. Í aprílmánuði 1978 kvað ríkisskattanefnd upp úrskurð í málinu og tók kröfu kæranda til greina og lagði innsent framtal til grundvallar álagningu með 25% viðurlögum, sbr. 7. mgr. 47. gr. laga nr. 68/1971, um tekjuskatt og eignarskatt. Ríkisskattanefnd gerði þá breytingu á framtali kæranda að færa hagnað af sölu bifreiðar að fullu til tekna með því að ekki yrði annað sé af gögnum málsins, en bifreiðin hefði verið í eigu kæranda skemur en tvö ár.
Síðar á árinu 1978 fór kærandi þess á leit við ríkisskattanefnd að fyrri úrskurður yrði endurupptekinn. Lagði kærandi fram skriflega staðfestingu frá sýsluskrifstofu í X-sýslu, varðandi eignarhaldstíma á umræddri bifreið. Samkvæmt staðfestingu þessari hafði bifreiðin verið skráð eign kæranda í u.þ.b. tvö ár og einn mánuð. Fór kærandi þess á leit, að helmingur söluhagnaðarins yrði talinn skattfrjáls.
Ríkisskattanefnd féllst á kröfur kæranda.