Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 16/1976

Gjaldár 1974

Lög nr. 68/1971, 47. gr.  

Viðurlög

Framtal kæranda barst ekki til skattstofu og voru honum áætluð gjöld. Í kærufresti sendi umboðsmaður kæranda framtal, og kvað mistök sín hafa valdið því, að framtal barst ekki á réttum tíma. Skattstjóri tók framtal kæranda til greina með 20% álagi á gjaldstofna, en hann kærði viðurlögin til ríkisskattanefndar. Ríkisskattanefnd varð ekki sammála um afgreiðslu kærunnar.

Í atkvæði minni hluta segir m.a.:

„Altítt er, að skattþegnar ráði sérkunnáttumenn til að annast skattskil sin. Auk þess er skattstjórum skylt að láta framtalsaðstoð í té skv. 35. gr. skattalaga. Leggja verður til grundvallar, að um sé að ræða viðurkennda þörf skattþegna fyrir slíka aðstoð. Eins og atvikum máls þessa er lýst, þykir fyrir hendi gild ástæða til að fella niður hin umdeildu refsiviðurlög skv. 8. mgr. 47. gr. skattalaga.“

Atkvæði meiri hluta:

„Ekki verður á það fallist, að framteljandi geti losnað undan ábyrgð sinni á því, að framtal berist á réttum tíma með því að fela öðrum manni að annast um gerð framtalsins eða skil þess. Eigi hefur verið sýnt fram á, að óviðráðanleg atvik hafi hamlað því, að framtal kæranda kæmist til skila á réttum tíma og er úrskurður skattstjóra því staðfestur.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja