Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 658/1978
Gjaldár 1977
Lög nr. 68/1971, 47. gr.
Viðurlög
Kærandi, sem var læknir, hafði ekki skilað framtali, fyrr en í júní og kvað hann skiladrátt sinn stafa af því, að hann fékk ekki uppgjör frá Sjúkrasamlagi Reykjavíkur fyrr en þá. Í umsögn ríkisskattstjóra um kæruna kemur fram, að læknar hafa á undanförnum árum fengið nokkuð lengri frest en aðrir til að skila framtölum. Stafar það af því, hversu seint gengur að afla gagna frá sjúkrasamlögum og vinna úr þeim.
Í úrskurði ríkisskattanefndar segir:
„Með hliðsjón af því, sem vitað er um fresti til framtalsskila lækna og upplýst er m.a. í umsögn ríkisskattstjóra, atvikum málsins að öðru leyti, sem og því, að hin álögðu viðurlög þykja bersýnilega ósanngjörn, er krafa kæranda tekin til greina.“