Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 546/1992

Gjaldár 1988

Lög nr. 75/1981 — 69. gr. A-liður og B-liður  

Barnabætur — Barnabótaauki — Barnabætur, erlendis — Barnabótaauki, skerðing — Barnabótaauki, skerðing vegna barnabóta erlendis — Lögmætisreglan — Álagning — Álagning, almenn — Kæruheimild — Kæranleg skattákvörðun — Kæranleiki — Gildistaka skattalaga — Greiðsluár — Greiðsluár barnabóta — Barnabætur, greiðsluár — Frávísun — Frávísun, engin kæranleg skattákvörðun

Kærð er synjun skattstjóra um ákvörðun barnabóta og barnabótaauka kærendum til handa vegna álagningar opinberra gjalda gjaldárið 1988, en skattstjóri ákvarðaði þeim einungis barnabótaauka. Kærendur eru búsettir erlendis en bera hér á landi ótakmarkaða skattskyldu samkvæmt úrskurði ríkisskattstjóra.

Með bréfi, dags. 14. febrúar 1990, gerir ríkisskattstjóri svofellda kröfu í máli þessu fyrir hönd gjaldkrefjenda:

„Í hinum kærða úrskurði tók skattstjóri kröfu kærenda um barnabætur vegna tekjuársins 1987 ekki til úrlausnar. Liggur því fyrir að skilyrðum 100. gr. laga um kæruheimild til ríkisskattanefndar er eigi fullnægt og er þess krafist að kærunni verði vísað frá ríkisskattanefnd.“

Við ákvörðun fjárhæðar barnabótaauka til kærenda gjaldárið 1988 skv. hinum kærða úrskurði skattstjóra var höfð hliðsjón af barnabótum sem kærendur höfðu fengið erlendis á árinu 1987 og barnabótaaukinn því lækkaður alls um 33.568 kr.

Með því að eigi var lagaheimild skv. B lið 9. gr. laga nr. 92/1987, um breyting á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum, til þeirrar skerðingar á barnabótaauka til kærenda er gerð var skv. hinum kærða úrskurði, þykir bera að leiðrétta barnabótaaukann til hækkunar alls 33.568 kr.

Með 9. gr. laga nr. 92/1987 var 69. gr. laga nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt með síðari breytingum, breytt hvað varðar ákvörðun og greiðslu barnabóta m.a. á þann veg að barnabæturnar skyldu ekki lengur ákveðnar við almenna álagningu opinberra gjalda eftir á vegna liðins árs, heldur greiddar á yfirstandandi ári. Með 15. gr. nefndra laga nr. 92/1987 var þessi breyting um ákvörðun og greiðslu barnabóta látin taka gildi frá og með 1. janúar 1988. Af þessu leiðir að kærendur áttu ekki rétt á barnabótum vegna ársins 1987 við álagningu opinberra gjalda gjaldárið 1988. Ber því að vísa þessari kröfu þeirra frá.

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja