Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 247/1978

Gjaldár 1977

Lög nr. 11/1975   Lög nr. 68/1971, 52. gr.  

Tjón á verkstæðishúsi í byggingu

Málavextir voru þeir, að kærandi færði til gjalda tjón sem varð á verkstæðishúsi sem var í byggingu hjá kæranda. Hafði mótauppsláttur fokið í óveðri og uppsteyptur veggur hrunið. Tjón þetta hafi ekki fengist bætt, hvorki hjá tryggingarfélögum né öðrum aðilum.

Máli sínu til stuðnings vísaði kærandi til 11. gr. laga nr. 11/1975, en þar er gert ráð fyrir að skattstjóri geti lækkað skattgjaldstekjur, ef skattþegn hefur orðið fyrir verulegu eignatjóni, m.a. af völdum náttúruhamfara. Þá vísaði hann einnig í niðurlagsákvæði C-liðs 15. gr. laga nr. 68/1971 en það er á þessa leið:

„Nú er fyrnanleg eign skv. þessum staflið seld eða hún eyðileggst og skal þá reikna ársfyrningu til gjalda hlutfallslega miðað við söludag eða tjóndag. Þó má fyrna niður í söluverð eða tjónbætur, sé það lægra en bókfært verð.“

Skattstjóri hafnaði kröfum kæranda og rökstuddi úrskurð sinn með því að umrætt tjón hafi orðið er húseign kæranda var í smíðum og verði því að telja að byggingarkostnaður hafi aukist að því marki, sem tjóninu nam.

Viðvíkjandi því, hvort 15. gr. skattalaganna ætti við, benti skattstjóri á að húsið hafi verið í smíðum og því ekki fyrnanleg eign, þegar tjónið varð.

Af hálfu ríkisskattstjóra var krafist frávísunar, þar sem úrskurðir skv. 52. gr. væru í höndum skattstjóra og ríkisskattstjóra, og tækju ekki til ópersónulegra aðila en kærandi var hlutafélag.

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir:

„Heimild skortir til að draga frá eignaspjöll slík sem um ræðir í þessu máli. Er úrskurður skattstjóra því staðfestur.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja