Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 95/1976

Gjaldár 1972

Lög nr. 90/1965  

Tjónabætur - Afturvirkni laga

Málsatvik voru þau, að í desember 1970 brann húsið nr. 16 við L-veg í Reykjavík. Kærandi var þá eigandi að 3/5 hlutum húss og lóðar. Hálfa eignina hafði hann keypt þann 25. okt. 1967 og 1/10 hluta þann 1. september 1968. Með samningi, dags. 11. mars 1971, selur hann „tjónbætur fyrir húsið nr. 16 við L-veg, sem eru kr. 1.600.000,oo - ein milljón og sex hundruð þúsund krónur oo/1oo- sbr. bréf Húsatrygginga Reykjavíkurborgar dags. 14. janúar 1971.“ Með samningi, dags. 12. sama mánaðar, seldi hann sama kaupanda „60% af lóðinni nr. 16 við L-veg í Reykjavík, ásamt mannvirkjum á lóðinni, eins og þau nú eru eftir bruna, er varð í des. s.l. Brunabótafé fylgir ekki í kaupunum.“ Umsamið söluverð nam kr. 600.000,oo. Af framtölum kæranda, sem liggja frammi í málinu virtist kaupverð hans á umræddum húshluta og lóð hafa numið sem næst kr. 1.100.000,-. Með því að kærandi hefði átt 5/6 hinnar seldu eignar full 3 ár, en skemur en 4 ár, taldi skattstjóri bera að meta 3/4 hluta ágóðans af þessum hluta skattskyldan, en söluhagnað vegna 1/6 hluta að fullu skattskyldan, þar sem seljandi hefði átt hann skemur en 3 ár. Taldi skattstjóri skattskyldan söluhagnað alls nema kr. 872.946,-.

Ríkisskattanefnd taldi, að ekki bæri að beita lögum nr. 30/1971 í máli þessu og var rökstuðningur hennar fyrir því sá sami og í sambærilegum málum um söluhagnað frá árunum 1973 og 1974. Að því búnu segir í úrskurði ríkisskattanefndar:

„Hvorki stofnun bótakröfunnar á hendur Húsatryggingum Reykjavíkurborgar né framsal hennar til kaupanda eignanna var tekjuskattskylt, sbr. B-lið 10. gr. laga nr. 90/1965. Ber því að fella niður tekjuviðbót skattstjóra að því leyti sem hún átti rætur að rekja til þess. Hins vegar var kærandi skattskyldur af hagnaði af sölu lóðarinnar, sem þykir hæfilega ákveðinn kr. 300.000,-.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja