Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 1126/1978

Gjaldár 1977

Lög nr. 8/1972  

Aðstöðugjald - Frávísun

Kærandi, er var vátryggingafélag, krafðist þess, að aðstöðugjaldsstofn gjaldárið 1977 vegna endurtrygginga yrði miðaður við brúttótekjur af þeirri starfsemi, en tap varð á þessum þætti starfseminnar árið 1976. Jafnframt krafðist kærandi þess, að fengin umboðslaun yrðu dregin frá aðstöðugjaldsstofni endurtrygginga.

Af hálfu ríkisskattstjóra var ekki fallist á þessar kröfur kæranda og í rökstuðningi hans sagði m.a.:

„Við ákvörðun aðstöðugjaldsstofns ber að miða við öll rekstrarútgjöld gjaldanda og þar sem hagnaður er af starfsemi hans kemur eigi til álita að takmarka aðstöðugjaldsstofn af endurtryggingastarfsemi við brúttó tekjur af henni.

Varðandi það hvort ekki megi draga frá aðstöðugjaldsstofni, fengin umboðslaun frá greiddum endurtryggingaiðgjöldum þá verður að líta svo á að umboðslaun séu hluti brúttótekna gjaldanda og jafnframt að endurtryggingaiðgjöld beri að telja til aðstöðugjaldsstofns án þessa frádráttar enda liggja ekki fyrir upplýsingar um tengsl fenginna umboðslauna við keyptar endurtryggingar.“

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir svo:

„Fallist er á þau sjónarmið, sem fram koma í umsögn ríkisskattstjóra hér að ofan. Að öðru leyti þykja ekki efni til að taka afstöðu til fjárhæðar aðstöðugjaldsins að svo vöxnu máli en með því að álagt aðstöðugjald virðist eigi of hátt svo sem gögn málsins liggja fyrir, þykir bera að vísa frá lækkunarkröfu kæranda.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja