Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 181/1977
Gjaldár 1976
Lög nr. 8/1972, 37. gr.
Aðstöðugjald - Fjölþættur atvinnurekstur
Kærandi hafði með höndum rekstur bakarís. Í reikningsskilum fyrir skattárið 1975 gerði kærandi grein fyrir millifluttum verðmætum milli starfsemisþátta í rekstri sínum, þ.e. brauðgerðar, kökugerðar og verslunar. Verðmæti þessarar milliveltu nam skv. reikningsskilum kr. 12.357.844,-.
Skattstjóri taldi milliveltu þessa vera gjaldskylda til aðstöðugjalds og gerði kæranda að greiða aðstöðugjald af henni.
Í greinargerð kæranda segir m.a.:
„Bókhaldslykill er þannig uppsettur, að reynt er að skipta rekstrinum í þætti af stjórnunarástæðum. Af þessum sökum er greint á milli verslunar, brauðgerðar og kökugerðar, þó þetta sé rekið sem ein heild.
Ekki getur því 37. gr. laga nr. 8/1972 um tekjustofna sveitarfélaga átt hér við, þ.e. að um fjölþættan atvinnurekstur sé að ræða er taki til fleiri en einnar atvinnugreinar. Getur það og tæpast verið ætlun löggjafans að fyllri reikningsskil skapi hærri skattstofn.“
Ríkisskattanefnd taldi að ákvæði 3. málsgr. 37. gr. laga nr. 8/1972 um tekjustofna sveitarfélaga tækju ekki til þeirrar milliveltu sem um væri að ræða í málinu. Voru kröfur kæranda því teknar til greina.