Úrskurður ríkisskattanefndar

Úrskurður rskn. nr. 768/1976

Gjaldár 1975

Lög nr. 8/1972, 23. gr., sbr. lög nr. 11/1975  

Útsvör - Endurgreidd fargjöld

Kæranda var við álagningu útsvars 1975 gert að greiða útsvar af endurgreiddum fargjöldum frá Varnarliðinu á Keflavíkurflugvelli. Nam fargjaldaendurgreiðslan kr. 60.420,-. Kærandi gerði þá kröfu, að fellt yrði niður útsvar gjaldárið 1975 lagt á hin endurgreiddu fargjöld.

Af hálfu ríkisskattstjóra var gerð svofelld krafa:

„Að úrskurður skattstjóra verði staðfestur og vísast til röksemda hans. Einnig vísast til starfsreglna ríkisskattstjóra um ferðakostnað, sem dagsettar eru 13. maí 1975, og áður hefur verið sent eintak af.

Ákvæði 4. gr. laga nr. 11/1975 taka af öll tvímæli um að til skattskyldra tekna teljist m.a. greiðsla flutningskostnaðar milli heimilis og vinnustaðar, en ekki sé um að ræða endurgreiðslu á útlögðum kostnaði, sem vinnuveitandi á að bera, en kærandi hefur innt af hendi til bráðabirgða eins og ríkisskattanefnd hefur stundum viljað álita.

Í 23. gr. laga nr. 8/1972, sbr. 15. gr. laga nr. 11/1975, er tilgreint á hvaða tekjur skuli lagt útsvar og er þar með talin 7. gr. laga nr. 68/1971 með áorðnum breytingum. Í sömu lagagreinum er getið um þær greinar sem taka skal tillit til við álagninguna. Ekki er að finna í lögum um útsvör nokkra heimild til að draga frá útsvarsskyldum tekjum ferðakostnað vegna atvinnu eða taka tillit til hans. Verður því að telja að krafa kæranda hafi ekki lagastoð.

Tekið hefur verið tillit til ferðakostnaðar kæranda við álagningu tekjuskattsins enda fellur sú álagning undir C-lið 12. gr. skattalaganna og fer um framkvæmd þess eftir áðurnefndum leiðbeiningum ríkisskattstjóra frá 13. maí 1975.“

Í úrskurði ríkisskattanefndar segir:

„Altítt er, að í kjarasamningum stéttarfélaga launþega og vinnuveitenda séu ákvæði þess efnis, að þeir síðarnefndu láti starfsfólki sínu í té ókeypis flutning til og frá vinnu, sé dagleg vinnustöð utan ákveðins svæðis eða fjarri heimili starfsmanns. Þessi flutningsskylda mun efnd með mismunandi hætti, en algengt mun, að vinnuveitandi inni hana af hendi með því að leggja til eigin ökutæki með ökumanni. Ekki er til þess vitað, að slík þjónusta sé eða hafi nokkurn tíma verið reiknuð viðkomandi starfsmönnum til skatt- eða útsvarsskyldra tekna. Í öðrum tilvikum, svo sem því er hér ræðir um, þegar flutningsskylda hvílir á vinnuveitandanum, endurgreiðir hann vinnuþega hin útlögðu fargjöld eða flutningskostnað, sem hann hefir innt af hendi. Ráða hagkvæmisástæður því gjarnan hvor leiðin er valin. Ekki eru sjáanleg efnisrök til að gera skattalegan mun hér á. Með vísan til þess, er rakið hefir verið, þykir eigi grundvöllur til að skýra 4. og 15. gr. laga nr. 11/1975 svo, að hún eigi við í tilviki sem þessu. Með þessum rökum er krafa kæranda tekin til greina.“

Þessi síða notar vefkökur

Nánari upplýsingar

Samþykkja