Úrskurður ríkisskattanefndar
Úrskurður rskn. nr. 819/1978
Gjaldár 1977
Lög nr. 117/1976
Sjúkratryggingagjald
Með bráðabirgðalögum nr. 95/1976 um breytingu á lögum nr. 95/1975 um breytingar á lögum um almannatryggingar nr. 67/ 1971 voru sett ný ákvæði um álagningu og innheimtu svokallaðs sjúkratryggingagjalds. Segir m.a. svo í ástæðum fyrir frumvarpinu:
Í ljós hefur komið, að skýr ákvæði vantar í lögin um það, hvaða aðili skuli leggja umrætt gjald á og að álag þetta hefur verið lagt á tekjulitla elli- og örorkulífeyrisþega en það var hins vegar ekki tilgangur laganna.“
Með lögum nr. 117, 31. des. 1976 eru enn sett ákvæði um innheimtu sjúkratryggingagjalds, og er þar um að ræða 1. lið í ákvæðum til bráðabirgða sem er þannig:
„Á árinu 1977 skal álagningaraðili útsvara leggja á, en innheimtumenn ríkissjóðs innheimta 1% álag á gjaldstofna útsvara. Skal ríkissjóði staðið skil á fyrirframgreiðslu eða hlutfallslegri innheimtu mánaðarlega. Eigi skal leggja gjald þetta á þá, sem ekki er gert að greiða útsvar.“
Með kæru dags. 11. nóv. 1977 kærði gjaldþegn nokkur sjúkratryggingagjald sitt til niðurfellingar. Samkvæmt álagningarreglum í sveitarfélagi hans bar honum að greiða kr. 10.800,- í útsvar en persónuafsláttur til greiðslu útsvars var ákvörðuð sama upphæð þannig að ekki var um neina útsvarsgreiðslu að ræða.
Í úrskurði ríkisskattanefndar segir:
„Sjúkratryggingagjald, gjaldárið 1977, er lagt á samkvæmt lögum nr. 117/1976, ákvæði til bráðabirgða.
Tölulið 1 í ákvæði þessu þykir eiga að skýra svo og er þá hafður í huga tilgangur ákvæðisins og forsaga þess, sbr. bráðabirgðalög nr. 95/1976 og lög nr. 9/1977, að þeim sem ekki er gert að greiða útsvar hvort heldur er vegna ónýtts persónuafsláttar eða annarra atvika, þeir skuli heldur ekki bera sjúkratryggingagjald.
Með tilvísun til ofanritaðs er krafa kæranda tekin til greina.“